Á sunnudagsmorgun sögðum við frá óhugnanlegu morðmáli sem kom upp í Miami á Flórída á fimmtudagskvöld þegar kona að nafni Patricia Ripley hringdi á lögregluna og sagði að tveir menn hefðu ráðist á hana og síðan numið 9 ára einhverfan son hennar á brott. Tveimur tímum seinna fannst lík drengsins í tjörn á nálægum golfvelli.

Ekki leið sólarhringur þar til lögreglan var búin að afskrifa sögu Patriciu og samkvæmt fyrstu fréttum var það vegna vitna sem sáu til Patricu reyna að drekkja Alejandro í skurði einum til tveimur tímum áður en hún hringdi á lögregluna. Fylgdi þeirri frétt að vitnin hefðu náð myndbandi að morðtilrauninni.

Í gærkvöldi sendi lögreglan svo frá sér myndband úr öryggismyndavél sem sýnir þessa tilraun Patriciu til að drekkja Alejandro. Það birtist á vefmiðli Miami Herald seint í gær og má sjá það hér að neðan. Þar sést Patricia kasta Alejandro ofan í skurð og hlaupa í burtu. Hins vegar sýnir það ekki þegar nærstaddur maður kemur Alejandro til bjargar. Hann virðist hins vegar ekki hafa séð hvað gerðist og lætur því Patricu, sem kemur aðvífandi, fá drenginn. Hún átti svo um klukku­stund síðar eftir að gera aðra tilraun annars staðar, og í það skipti heppnaðist ódæðið.

Við vörum viðkvæma við þessu myndbandi.

Eins og við sögðum frá í fyrri frétt um málið fékkst Patricia ekki til að segja neitt um ástæður þessa illvirkis annað en hún hefði viljað „koma Alejandro á betri stað“ eins og hún orðaði það frammi fyrir dómara. Má reikna með að smáatriði málsins verði gerð kunn þegar lengra líður.

Samfélagið í Miami sem þau Patricia og Alejandro tilheyrðu er algjörlega miður sín vegna morðsins. Ber öllum sem til þekkja saman um að það sé gjörsamlega óskiljanlegt því enginn vissi til að eitthvað amaði að í samskiptum Patriciu við son sinn. Hann er auk þess sagður hafa verið hvers manns hugljúfi í sérskólanum sem hann gekk í.

Því grunaði engan að Patricia myndi beita hann ofbeldi, hvað þá myrða hann með köldu blóði, og er faðir hans þeirra á meðal. Hann er nú niðurbrotinn maður og er ekki grunaður um að hafa átt neinn þátt að málinu og verknaði eiginkonu sinnar.