Ion Aliman, bæjarstjóri Deveselu í Suður-Rúmeníu, vann stórsigur í bæjarstjórakosningum nýverið, þrátt fyrir að hafa látist af völdum fylgikvilla Covid-19 tíu dögum fyrir kosningar.

Andlát hans átti sér stað of seint til að hægt væri að fjarlægja nafn hans af kjörseðlum. Fréttir af fráfalli hans breiddust hratt út um þorpið, sem telur rúmlega 3000 manns. Hefði Aliman, sem var geysivinsæll meðal þorpsbúa, haldið upp á 57 ára afmæli sitt á kjördag.

Til að heiðra manninn sem þau höfðu dáð fóru hundruðir þorpsbúa á kjörstað á sunnudag og kusu Aliman engu að síður, og þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir seint á sunnudag kom í ljós að hann hafði unnið 1057 af þeim 1600 atkvæðum sem greidd voru. Eftir þennan stórsigur fóru íbúarnir að gröf hans til að kveikja á kertum fyrir hann og votta virðingu sína.

Myndskeið sem deilt var víða á samfélagsmiðlum sýndi fólk með vasaljós og kerti safnað saman kringum gröf Alimans. Sagði fólk ýmist, „Þetta er sigur þinn“ og „Við munum gera þig stoltan, við vitum að þú ert þarna uppi að fylgjast með.“

Aliman var meðlimur í vinstrisinnaða jafnaðarmannaflokknum PSD, og ​​það er líka staðgengill hans, Nicolae Dobre. Aðspurður hvort hann kaus Aliman sagði Dobre: ​​„Það gerði ég vissulega.“