Út kom á dögunum önnur stiklan úr No Time To Die, væntanlegri mynd um njósnarann James Bond. Mun hún vera sú tuttugasta og fimmta í þessari geysivinsælu kvikmyndaseríu.

Leikstjórinn, Cary Joji Fukunaga, er mörgum kunnugur fyrir hina gríðarlega minnisstæðu fyrstu seríu HBO-þáttanna True Detective, sem skartaði Matthew McCaunoghey og Woody Harrelson í aðalhlutverkum og var jafnan rómuð fyrir fádæma rökkvað andrúmsloft og firnasterk skrif. Hann hefur látið hafa eftir sér um No Time To Die að hér sé um að ræða aðeins annan Bond en þekkst hefur nýverið í höndum Daniel Craig leikara: í byrjun þessarar mun Bond hafa verið sestur í helgan stein um fimm ára skeið. Líkti Fukunaga honum við sært dýr sem er ekki búinn að vinna úr atburðum síðustu mynda, og sagði jafnframt að Bond væri að reyna að sættast við hlutverk sitt sem 00-njósnari.

Sjá einnig: Sean Connery kosinn besti Bondinn, engum að óvörum

Þó sálfræðilegu efnistökin séu kannski einhverju alvarlegri en þekkst hefur í flestum Bond-myndum þá mun hasarinn síður en svo vanta, ef stikluna hér að neðan er eitthvað að marka. En sjón er sögu ríkari — smellið og njótið: