Þýska pönkgoðið Nina Hagen og bandaríski fönkfrömuðurinn George Clinton gáfu nýverið út lag saman. Er þetta í fyrsta sinn sem þessar tvær goðsagnir leiða saman hesta sína, og var tilefnið hér að sýna samstöðu með þeim samfélagssviptingum sem eiga sér stað vestanhafs um þessar mundir.

Lagið, sem heitir „Unity,“ var samið í kjölfar atviksins sem hrinti hreyfingunni af stað, þegar lögreglumaður í Minneapolis varð óvopnuðum blökkumanni að nafni George Floyd að bana með því að krjúpa á hálsi hans í meira en átta mínútur.

Clinton hefur áður beitt sér í hreyfingunni, en hann hélt ræðu þann 28. ágúst síðastliðinn í risavaxinni mótmælagöngu í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C., þar sem hann sagði meðal annars:

„Landið okkar og borgirnar okkar hafa verið svikin fyrir peninga og eiginhagsmuni þeirra fáu. Og ég trúi því að einhvern veginn munum við, fólkið, geta breytt til. Ég veit að lög og regla verða að vera til staðar, en ef lög mannfólksins eru ekki sanngjörn og drengileg, þá koma lög náttúrunnar og taka í taumana.“

Hagen hefur tilkynnt að von sé á nýrri plötu frá henni á næsta ári, og mun sú koma út á plötuútgáfunni Groenland Records.

Heyra má lagið hér að neðan: