Nóttina 14. apríl 1912 skall breska farþegaskipið RMS Titanic á ísjaka og sökk niður á hafsbotn í Norður-Atlantshafi. 1500 manns af rúmlega 2200 um borð dóu, og er þetta slys jafnan talið með verstu sjóslysum sögunnar. Komin er nú fram ný rannsókn sem bendir til þess að truflanir frá norðurljósunum geti hafa stuðlað að hömungunum. Greint var frá þessu á vísindafréttavefnum Live Science.

Rannsóknin, sem birt var í tímaritinu Weather í ágúst 2020, leiddi líkur að því að jarðsegulmagn ljósanna gæti hafa truflað leiðsögukerfi skipsins sem og samskiptakerfi þess. Höfundurinn, Mila Zinkova, greindi veðurskilyrði um þá nótt sem Titanic sökk, en samkvæmt frásögnum þeirra sem lifðu slysið af höfðu verið björt og litrík norðurljós til staðar í himni þessa nótt. 

Norðurljós myndast á næturhimni vegna sólstorma sem komnir eru frá sólinni. Þessir stormar innihalda gríðarlegt magn hlaðinna agna sem stundum eru nógu sterkar til að komast alla leið til jarðar. Þegar þetta rafmagnaða gas mætir svo lofthjúpi jarðar á það efnaskipti við lofttegundir, svo sem súrefni, og úr verða dansandi grænir, fjólubláir og bláir litir norðurljósanna.

Zinkova bendir á í rannsókninni að ef sólstormur væri nógu öflugur til að framleiða norðurljós þá gæti sama segulorka verið nægilega sterk til að hafa áhrif á siglinga- og samskiptakerfin um borði í hinu 269 metra háa Titanic-skipi, sem og öðrum skipum sem reynt hefðu að koma til hjálpar.

James Bisset, undirstýrimaður skipsins RMS Carpathia, sem bjargaði þeim 700 manns sem lifðu slysið af, hafði skrifað í stýrimannsdagbók sína fyrr sama kvöld: „Ekkert tunglskin, en norðurljósin glitra líkt og tunglgeislar sem skjótast upp úr sjóndeildarhringnum í norðri.“ Þegar Carpathia kom til að bjarga eftirlifendum fimm klukkustundum síðar hafði Bisset svo tilkynnt að hann gæti enn séð „grænleita geislana.”

Einnig skrifaði Lawrence Beesley, einn af eftirlifendum slyssinss, um ljóma sem “sveigðist bogadreginn yfir norðurhimininn, með nokkrum blaktandi geislum sem teygðu sig í átt að Pólstjörnunni.” Hvað Zinkova varðar er þetta augljós lýsing á norðurljósunum.

Rannsóknin þykir færa sterk rök fyrir því að jarðsegulkraftur norðurljósanna hafi haft áhrif á leiðsögukerfi Titanic og þannig beint því í átt að ísjakanum. Jafnvel lítilsháttar frávik, einungis 0,5 gráður frá braut, væri nóg til að valda banvænum árekstri, og mögulegt er að truflun á seglum geti hafa valdið slíkri villu í áttavita skipsins.

„Þessi villa, sem við fyrstu sýn virðist lítivæg, gæti hafa gert útslagið á milli þess að rekast á ísjakann og forðast hann,“ skrifaði Zinkova.