Rannsóknir og greiningar á mannvistarleifum, þar á meðal á þremur beinflísum, tönn og handverki, sem fundust í Bacho Kiro-hellinum vestur af bænum Dryanovo í Mið-Búlgaríu, þykja hafa sýnt með nokkuð óyggjandi hætti að maðurinn, þ.e. Homo sapiens, hafi búið þar um slóðir jafnvel allt frá árinu 47.000 á fornsteinöld. Áður hafði verið talið að hann hafi ekki komið þangað fyrr en um árið 40.000.

Frá niðurstöðum rannsóknanna var skýrt á mánudag í tveimur greinum á Nature og Nature Ecology & Evolution.

Þessi uppgötvun skiptir miklu máli í mannfræðinni því ef rétt er (taldar 95.4% líkur á að svo sé) hafa manntegundirnar Homo sapiens og Neanderdal sennilega búið mun fyrr og sennilega mun lengur saman á sömu slóðum en áður var talið því Neanderdalsmenn dóu út um svipað leyti og Homo sapiens-menn voru taldir hafa haslað sér völl í Evrópu. Nú er nokkuð ljóst að þessar tvær manntegundur bjuggu nánast hlið við hlið í Evrópu 6-7.000 árum fyrr en áður var talið.

Vinsamleg samskipti frekar en óvinsamleg

Það sem mörgum finnst ekki síður merkilegt við mannvistaleyfarnar er að þær virðast renna stoðum undir að samskipti þessara tveggja manntegunda hafi frekar verið vinsamleg en óvinsamleg. Á meðal þess sem fundist hefur eru handverk sem einnig hafa fundist við rannsóknir á tilvist Neanderdalsmanna og bendir það til að tegundirnar hafa kennt hvor annarri ýmislegt. Áður hefur verið sýnt fram á við rannsóknir á yngri beinum að þær blönduðust að hluta, þ.e. eignuðust saman afkvæmi. Þar með fjarlægjast mannfræðingar enn frekar þá kenningu að Homo sapiens hafi útrýmt Neanderdalsmönnum í Evrópu.

Nam maðurinn Evrópu tvisvar?

Annað sem mannfræðingar spyrja sig að í kjölfar fundarins er hvort Homo sapiens hafi í raun numið Evrópu tvisvar og að þeir sem komu þangað fyrst, sennilega nokkur hundruð manns frá Vestur-Asíu, hafi ekki náð endanlegri fótfestu og dáið út. Hafi forfeður okkar síðan aftur numið Evrópu í annarri bylgju flæðis þeirra frá Afríku.

Ljóst er að mannfræðingar og aðrir vísindamenn munu rýna nánar í niðurstöður rannsóknanna á næstu mánuðum og reyna að átta sig betur á vísbendingunum sem þær gefa og þá ekki síst hvort þær geti einnig verið púsl í þeirri gátu hvers vegna aðrar manntegundir en Homo sapiens dóu endanlega út.

Við bendum áhugafólki á að kynna sér skýrslur og niðurstöður rannsóknanna betur á áðurnefndum vísindagreinum á Nature og Nature Ecology & Evolution.