George Clooney, Midnight Sky

Kvikmyndin Midnight Sky er sjöunda myndin sem George Clooney leikstýrir, en hún er gerð eftir vísinda- og heimsendasögunni Good Morning, Midnight eftir Lily Brooks-Dalton sem kom út í ágúst 2016 og hlaut bæði frábæra dóma og ýmsar viðurkenningar. Eru margir á því að bókin sé á pari við bestu vísindaskáldsögur seinni tíma en hún hefur líka verið sögð einstök saga um það sem býr innra með fólki og viljann til að lifa. Clooney er einnig aðalframleiðandi myndarinnar og það var Mark L. Smith (The Revenant, Overlord) sem skrifaði handritið.

Sagan

Hér segir frá stjarnfræðingnum Augustine (Clooney) sem hefur helgað líf sitt rannsóknum á tilurð alheimsins og er nú staddur ásamt fleiri vísindamönnum í afskekktum rannsóknarbúðum einhvers staðar í námunda við Norðurpólinn. Dag einn berast þeim ógnvekjandi fréttir um yfirvofandi hamfarir sem gætu eytt öllu lífi á Jörðu ef allt færi á versta veg. Allir vísindamennirnir í búðunum halda þegar heim á leið, nema Augustine sem telur sig ekki hafa að neinu betra að hverfa en því sem hann hefur á ísilagðri breiðunni. Skömmu eftir að allir aðrir eru farnir uppgötvar hann að allt samband hans við umheiminn hefur rofnað.

Á sama tíma er geimfarið Aether að nálgast Jörðu eftir vel heppnaða en margra ára rannsóknarferð til Júpíters. Um borð eru nokkrir geimfarar sem lúta stjórn konu að nafni Sully (Felicity Jones) og er óhætt að segja að þau hlakki til að koma loksins heim og hafa fast land undir fótum. En þegar allt samband við stjórnstöð á Jörðu rofnar skyndilega (á sama tíma og það rofnar hjá Augustine) verður þeim ljóst að kannski eiga þau ekki afturkvæmt eftir allt saman.

Þessar tvær frásagnir renna síðan saman í eina heild og leiða til söguloka sem margir lesendur bókarinnar hafa sagt að séu einhver þau óvæntustu sem þau hafi upplifað.

Nokkrir Íslendingar koma við sögu

Með stærstu hlutverkin fyrir utan þau George Clooney og Felicity Jones fara David Oyelowo, Tiffany Boone, Caoilinn Springall og Demián Bichir og á meðal annarra leikara eru þau Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Atli Óskar Fjalarsson. Þau Leifur B. Dagfinnsson og Birna Paulina Einarsdóttir eru svo í framleiðsluteyminu og á meðal annarra Íslendinga sem koma við sögu í kreditlistanum er Hallur Karl Hinriksson listamaður á Selfossi.

Eins og segir í fyrirsögninni verður myndin sýnd á Netflix í lok árs en ekki liggur fyrir þegar þetta er skrifað hvort hún fari einnig í kvikmyndahús eins og raunin hefur verið með nokkrar af Netflix-myndunum.