Nýja tunglið í nóvember mánuði á sér stað í dag þann fjórtánda nóvember. Á þessum fallega töfrandi degi lenda sól og tungl á síðustu gráðu vogarmerkisins innan smástirnisins Vishaka. Vishaka kallast stjarna markmiðana. Á nýju tungli hefjum við nýtt ferðalag með tunglinu, við setjumst niður og við merkjum daginn og komandi daga í lífi okkar. Gott er að setja sér markmið á þessum degi, leggja við hlustir og skrifa. Skrifa án væntinga eða markmiða, heldur aðeins að viðra það sem þér liggur á hjarta. Þetta er góð leið til spegla sjálfið, ástand huga og hjarta en jafnframt að leyfa sálinni að skríða fram án stjórnunnar hugans og væntinga hans. Stundum er hann einfaldlega bara fyrir og tálmar flæði okkar dýpsta veruleika.

Vishaka eins og vogin táknar tengingu okkar við ástvin og maka. Tákn Vishaka er sigurbogi hjónavígslunnar og undir ráðum guðsins Agni. Hér er kröftug orka, gríðarlegur vilji og stórir draumar. Vishaka táknar sigur, eða markmiði náð – kaflaskiptin þegar við hefjum samlíf á þessari jörðu með öðrum einstaklingi og veljum að stíga í vanginn við ástina það sem eftir lifir daga okkar. Vishaka er þó talin þó nokkuð óstýrilát og erfið meðhöndlunar og þeir sem fæðast hér undir þekktir fyrir að setja sér óheilbrigð markmið og lifa fyrir næsta markmið en gleyma að njóta litlu hlutana og rjómans sem lífið hefur uppá að bjóða. Þeir eiga það jafnvel til að vera vægðarlausir í viðleitni sinni til að fá sínu fram. Undir orku vishaka ríkir stríðsandi og á næstu vikum getum við búist við valdabaráttunni sem fylgir sjálfhverfri framvindu. Á næstu vikum bið ég þig og mig og okkur öll að vera vakandi yfir þessum eiginleika vishaka, að muna skoða vel forsendur markmiða og væntinga okkar. Ef markmið okkar eru heilbrigð og endurspegla virðingu og kærleika fyrir öllu lífi þá erum við á réttri leið. Að skilgreina markmið okkar með skrifum og skoða þannig hug okkar á haldbæran og áþreifanlegan máta er oft besta leiðin til að skoða sjálfan sig í víðara sjónarspili. Það verður mikilvægt þessar komandi vikur.

Eftir tvær vikur fáum við svo tunglmyrkva undir smástirninu rohini og þá fer heldur betur að færast líf í tuskurnar. Tunglmyrkar eiga það til að leysa úr læðingi það sem ekki er venjulega sýnilegt og að upplýsa það sem annars er myrkvað. Þessi tiltekni myrkvi lendir á Neptúnus, sem einnig fjallar um feluleiki og tálsýnir svo eitthvað mun afhjúpast um dýpri vistarverur okkar í þessu lífi. Farið gætilega, setjið ykkur heilbrigð markmið og sýnið náungann þá alúð sem þið sjálf þráið.

Frá mínu hjarta til ykkar,
Fjóla