Hin árlega Emmy-verðlaunahátíð fór fram í nótt í Los Angeles, en hátíðin fór nær öll fram með fjarfundabúnaði vegna heimsfaraldurs COVID-19. Allir kynnar þurftu að undirgangast COVID-próf áður en útsending hófst, en sjónvarpsstjarnan Guiliana Rancic og leikkonan Vivica A. Fox greindust báðar með kórónuveiruna áður en hátíðin hófst.

Sjá einnig:

Eldsvoði í beinni útsendingu – Jennifer Aniston bjargar málunum

Leikarinn Jason Sudeikis var meðal kynna og fannst tilvalið að gera grín að takmörkunum og sýnatöku vegna COVID-19 í beinni útsendingu. Sudeikis mætti á sviðið til að veita verðlaun fyrir framúrskarandi gamanseríu.

Sudeikis var hins vegar truflaður í beinni útsendingu af hjúkrunarfræðingi sem var mættur til að taka sýni úr leikaranum.

„Virkilega? Getur þetta ekki beðið í fimm mínútur. Ókei, afsakið, við erum lagalega skikkuð til að fara í COVID-próf á klukkutíma fresti,“ sagði Sudeikis áður en hjúkrunarfræðingurinn hóf sýnatöku.

„Ekki hafa áhyggjur, þið takið ekki einu sinni eftir því að hún sé hérna. En allavega, nokkrir byltingarkenndir þættir eins og I Love Lucy, All in the Family og Everybody Loves Raymond…ó vá, þetta er djúpt! Ókei, á!“ sagði Sudeikis í framhaldinu. Þegar að hjúkrunarfræðingurinn spurði hann síðan hvenær hann ætti afmæli sagði leikarinn:

„Ég veit það ekki lengur. Ég held að þú hafir sett dæld í heilann minn.“

Það var Jimmy Kimmel sem var aðalkynnir hátíðarinnar í gær, en það voru sjónvarpsþættirnir Schitt’s Creek, Succession og Watchmen sem sigurvegarar hátíðarinnar að þessu sinni. Schitt’s Creek setti met á hátíðinni með því að hreppa alls níu verðlaun, eitthvað sem engum gamanþætti hefur tekist áður.