Fyrir rúmu hálfu ári síðan settist ég niður á kaffihúsi með latte, súrdeigsbrauð með pestó og bók til að lesa. Þar sem ég blaðaði í bókinni fékk ég skyndilega hugljómun, svo sterka og mikla að mig langaði helst að stökkva upp úr sætinu mínu og hrópa upp fyrir mig, sem hefði örugglega vakið mikla athygli og undrun þeirra ókunnugu einstaklinga sem deildu þarna með mér rými.

Bókin sem ég var að lesa fjallaði um það hvernig hægt sé að vinna úr áföllum úr æsku, en það var eitthvað við lesefnið sem varð til þess að hlutirnir smullu saman í höfðinu á mér og mér fannst ég skyndilega skilja líf mitt í heild sinni; af hverju hlutirnir hefðu verið svona ótrúlega erfiðir fyrir mig alltaf hreint og lífið svona flókið.

Þar sem ég sat þarna skildi ég sjálfa mig og það sem ég hafði gengið í gegnum svo vel. Ég sá hvernig ég hafði komið mér upp ákveðnu varnarkerfi, sem barn og unglingur, til þess að lifa af í óöruggum aðstæðum og í heimi sem ég trúði undir niðri að væri mér hættulegur. Í fyrsta sinn áttaði ég mig á því að ég væri búin að vera ofurárvökul allt mitt líf.

Ofurárvekni (e. hypervigilance) er algeng hjá einstaklingum með áfallastreituröskun. Hún gengur út á að fólk sem hefur gengið í gegnum áfall eða langvarandi áföll sér hættur í hverju horni. Taugakerfið þess er því þanið öllum stundum, tilbúið að bregðast við yfirvofandi ógn með því að bregðast við á einhvern ákveðinn hátt, yfirleitt með því að taka slaginn, frjósa eða flýja aðstæður.

Ég gerði mér að vissu leyti grein fyrir því, alveg frá því í grunnskóla, að ég hefði mikla þörf fyrir að grannskoða umhverfi mitt með því að vega og meta fólk og aðstæður. Ég varð t.d. vör við það í aðstæðum þar sem ég þurfti að velja mér sæti, í skólastofum eða á veitingastöðum, en ég horfði alltaf vel og vandlega í kringum mig fyrst og valdi svo sæti þar sem enginn gæti gengið upp að mér og komið mér að óvörum.

Það sem var merkilegt við þessa hugljómun var hversu mikil áhrif hún hafði á mig líkamlega. Það var eitthvað við þetta andartak, þennan skilning, sem varð til þess að ég slakaði umsvifalaust á, en ég fann strax fyrir því þarna á kaffihúsinu hvernig kjálkavöðvarnir sigu neðar, auk þess sem axlirnar tóku við síðar um kvöldið og virtust vera að reyna að síga neðar og hvíla á sínum rétta stað.

Þarna fór af stað ferli sem tók mig nokkra daga að aðlagast. Ég var greinilega vön því að halda stöðugri spennu í kjálka og öxlum, en þessir vöðvar þurftu tíma til þess að aðlagast breyttum aðstæðum. Enn þann dag í dag, finn ég hvernig ég spenni kjálkann þegar ég verð stressuð, en munurinn er sá að ég finn núna fyrir því þegar það gerist og er fær um að bregðast við álaginu með því að draga djúpt inn andann og segja sjálfri mér að vera róleg.

Það felur í sér ótrúlegt álag, tilfinningalegt og líkamlegt, að vera stöðugt ofurárvökull. Ég var ekkert endilega meðvituð um það að ég hefði þörf fyrir að sýna stöðugt aðgát og vera á varðbergi hvert sem ég fór, en ég fann vel fyrir því hversu kvíðin og áhyggjufull ég var. Það er mér ótrúlega mikill léttir að vera ekki lengur föst í þessum vítahring streitu sem ofurárvekni er.

Það er þó engan veginn svo að ég hafi náð tökum á þessari ofurárverkni á einu andartaki. Ég tel að þessi uppgötvun hafi komið til vegna þess að ég var búin að vinna svo mikla vinnu með hjálp ýmiskonar ráðgjafa og meðferðaraðila, að ég var tilbúin að sleppa tökum á því viðhorfi mínu að heimurinn væri hættulegur staður til þess að vera á.

Ég var byrjuð að treysta sjálfri mér, treysta umhverfi mínu og treysta fólkinu í kringum mig, sem varð til þess að ég gat loksins farið að slaka almennilega á. Að vinna í sjálfri mér er ekki auðvelt, en einstaka sinnum upplifi ég svona sigra, sem gera alla þessa sjálfsræktarvinnu og þroskaferli vel þess virði.