Já, það er víst hægt að borða pasta á ketó mataræðinu. Ég komst að því þegar ég fann þessa uppskrift á síðunni Happy Body Formula. Smá meira maus en að henda pasta í pott en ofboðslega bragðgott.

Ketó pasta

Kúrbítsnúðlur – Hráefni:

1 kg kúrbítur
1 msk. salt
1 msk. ólífuolía
2 hvítlauksgeirar
¼ tsk. kúmen
¼ tsk. pipar

Kjúklingur – Hráefni:

4 kjúklingabringur
1 msk. ólífuolía
1 tsk. salt
½ tsk. pipar

Önnur hráefni:

2 skalottlaukar
7–10 fersk myntulauf
¼ bolli pistasíuhnetur, saxaðar
1 msk. sítrónusafi

Aðferð:

Notið svokallaðan „spiralizer“ til að búa til núðlur úr kúrbítnum. Setjið núðlurnar í skál og blandið salti saman við. Skerið kjúklinginn í lengjur. Hitið olíu í stórri pönnu yfir meðalhita. Stráið salti og pipar yfir kjúklinginn og steikið í 2 til 3 mínútur. Snúið lengjunum við og steikið í 2 til 3 mínútur til viðbótar. Hrærið reglulega í kjúklingnum þar til hann er eldaður í gegn. Setjið hann síðan á disk og hyljið með álpappír. Skerið laukinn þunnt og saxið myntulaufin. Blandið þessu saman við hneturnar og sítrónusafann. Síðan klárum við núðlurnar. Setjið olíu í litla skál, maukið hvítlaukinn og bætið honu msaman við olíuna. Bætið kúmeni og pipar saman við. Setjið núðlurnar í hreint viskastykki og kreistið vökva úr þeim. Setjið núðlurnar í pönnuna sem þið steiktuð kjúklinginn í og hitið í 2 til 3 mínútur yfir meðalhita. Ýtið núðlunum á eina hlið pönnunar og lækkið hitann. Bætið hvítlauksolíunni út í og hitið í 20 sekúndur. Hrærið stanslaust í olíunni. Blandið henni síðan saman við núðlurnar. Slökkvið á hitanum og bætið kjúklingi og pistasíublöndunni saman við. Hrærið vel og berið strax fram.