Út kom á dögunum stikla fyrir aðra þáttaröð Star Wars-seríunnar The Mandalorian. Fyrsta sería þáttarins sló heldur betur í gegn meðal aðdáenda Star Wars-kanónunnar, sem margir eru komnir eilítið til ára sinna og eru oft æði ósammála um gæði nýjustu afurðanna, hvort sem um bíómyndir eða þáttaraðir er að ræða.

Gagnrýnar raddir heyrðust þó auðvitað líka, og var þá einna helst tínt til að sumum þóttu þættirnir fullsjálfstæðir og sögubyggingin yfir seríuna því frekar hægfara, sem leiddi til þess að einhverjir misstu áhugann. Þó var almennt samþykki meðal aðdáendahópsins um að hér væri að ræða hina prýðilegustu skemmtun, og margir hafa bent á vissa atburði — þá sérstaklega í seinni þáttum seríunnar — sem þykja gefa vísbendingar um að stærri söguþráður verði uppi á teningnum í áframhaldinu. Má vel segja að stiklan sem hér fylgir renni stoðum undir þær kenningar.