Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir

Samtök áhugafólks um spilafíkn óska eftir rökstuddum svörum við því hvers vegna heilbrigðisráðherra tók út „spilakassa“ í nýjustu reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, í andstöðu við tillögur sóttvarnalæknis um opinberar sóttvarnaaðgerðir, sbr. minnisblað hans þar að lútandi dags. 29. október sl.

Afleiðingar þessa eru að Íslandsspil sf. hafa spilakassa sína opna. Þrátt fyrir að spilakassar þeirra eru staðsettir í spilasölum. Varla er það hlutverk heilbrigðisráðherra að gæta fjárhagslegra hagsmuna einstakra rekstraraðila umfram aðra, á kostnað lýðheilsu almennings í landinu.

Óska samtökin eftir upplýsingum um hver sé hin brýna þörf sem knýr heilbrigðisráðherra til að fara gegn tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum.

Jafnframt óska Samtök áhugafólks um spilafíkn eftir afriti af öllum erindum sem kunna að hafa borist ráðuneytum varðandi spilakassa í tenglsum við sóttvarnir gegn Covid, hvort sem um ræðir beiðnir um að hafa umrædda spilakassa opna eða útskýringar á starfsemi þeirra, eða staðsetningu.

Samtök áhugafólks um spilafíkn fordæma að lýðheilsu og velferð svo viðkvæms hóps, sem spilafíklar eru, sem og lýðheilsu alls almennings, sé fórnað á altari hagsmunagæslu eigenda og rekstraraðila spilakassa Íslandsspila; Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ.

Að endingu fara Samtök áhugafólks um spilafíkn þess á leit við heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að leyfi til reksturs spilakassa verði afturkölluð tafarlaust. Á undanförnum mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd „góðgerðasamtök“ eru ekki verðug slíkra
leyfa. Ekkert í þeirra framkomu og starfsháttum gefur tilefni til að halda að þeim sé treystandi til að halda úti jafn umdeildri og viðkvæmri starfsemi, þar sem líf og velferð einstaklinga sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómi er lagt að veði.

Þar sem erindi þetta snýr að fleiri ráðuneytum en heilbrigðisráðuneyti er samrit sent á dómsmálaráðherra og forsætisráðherra, með ósk um að það verði kynnt og rætt í ríkisstjórn.

Virðingarfyllst,
Alma Björk Hafsteinsdóttir

F.h. Samtaka áhugafólks um spilafíkn

Samrit sent til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmaálráðherra