Miklar óeirðir brutust út við þinghúsið, Capitol Hill, í Washington DC í Bandaríkjunum í síðustu viku þar sem æstir stuðningsmenn Donald Trump, Bandaríkjaforseta, brutu sér leið inn í þinghúsið.

Fimm létust í óeirðunum, einn lögreglumaður og fjórir úr hópi stuðningsmanna.

Sjá einnig:

Þetta er fólkið sem lést í óeirðunum í Bandaríkjunum

Myndir af óeirðunum hafa vakið mikinn óhug, en stuðningsmenn Trump léku lausum hala inni í þinghúsinu um nokkra hríð, brutust inn í skrifstofur og rændu og rupluðu.

Þingmönnum, sem voru í þinghúsinu til að staðfesta kjör Joe Biden sem Bandaríkjaforseta, var komið í öruggt skjól, en nú hafa nokkrar myndir farið á flug á internetinu sem sýna, að mati netverja, sannar hetjur óeirðanna.

Myndirnar sýna aðstoðarmenn innan þinghússins bera koffort með kjörseðlum á öruggan stað áður en aðstoðarmennirnir tryggðu sitt eigið öryggi. Án kjörseðlanna hefði ekki verið hægt að staðfesta kjör Biden þennan dag.

Kona að nafni Robbin vekur til að mynda athygli á þessari hetjudáð með orðunum:

„Það verða alltaf til illmenni. Það verða alltaf til hetjur.“

Í athugasemdum við færsluna má sjá að margir taka í sama streng og lofsyngja aðstoðarfólkið, mest megnis konur, fyrir fórnfýsina.

Sjá einnig:

Tvær magnaðar myndir sýna forsetatíð Trump í hnotskurn