Í skugga heimsfaraldurs COVID-19 hafa mörg fyrirtæki þurft að gera ráðstafanir til að hægt sé að hafa næga fjarlægð á milli starfsmanna. Því vinna nú margir heima við og munu koma til með að gera það eitthvað áfram.

Sviðslistahópurinn Improv Everywhere í New York í Bandaríkjunum sá leik á borði og ákvað að nýta þessa COVID-tíma til að útbúa áhugaverðan gjörning í Austur-ánni í New York-borg. Hópurinn útbjó skrifstofu á fleka sem sigldi um ána, en skrifstofan hafði allt sem til þarf; vatnskæli, húsgögn, tölvu, internet og spritt.

Mynd: Thomas Concordia / ImprovEverywhere.com.

Það var Jesse Good, meðlimur hópsins, sem sigldi um á flekanum og tengdist þar restinni af Improv Everywhere-hópnum í gegnum Zoom-spjall. Good var að sjálfsögðu í björgunarvesti ef eitthvað færi úrskeiðis yfir vinnudaginn.

Mynd: Thomas Concordia / ImprovEverywhere.com.

Eitt sem vantaði á flekann var snarl en hópurinn leysti það vandamál snögglega með því að senda manneskju á árabát með matvæli til Goods, til að mynda snakk, orkustykki og te. Voru matvælin afhent með priki til að halda fjarlægð.

Mynd: Thomas Concordia / ImprovEverywhere.com.

Þessi gjörningur hópsins vakti mikla athygli, en meðlimir Improv Everywhere höfðu látið teikna upp framtíðarsýn um miklu fleiri fleka á vatninu og héngu plaköt með framtíðarsýninni í nágrenni við Austur-ána.

Meðal þeirra sem sigldu fram á flekann var fólk á einkabát sem setti myndband af skrifstofunni á TikTok. Myndbandið fór á flug og hefur verið horft á það oftar en milljón sinnum.

Mynd: Thomas Concordia / ImprovEverywhere.com.

Það má ætla að flekinn sé ein öruggasta skrifstofa heims, en hentar kannski ekkert sérstaklega vel þegar veðrasamt er.

Mynd: Thomas Concordia / ImprovEverywhere.com.