Ég elska einfaldar uppskriftir að kvöldmat, sér í lagi ef þær eru líklegar til að henta bragðlaukum allra í fjölskyldunni.

Ég fann þessa geggjuðu pastauppskrift á síðunni Love Food. Í uppskriftinni er mikið af fersku kryddi, en auðvitað má alltaf skipta því út fyrir þurrkað, en munið að þurrkaðar kryddjurtir eru bragðsterkari en fersku og því þarf að minnka magnið ef þurrkaðar eru notaðar.

Verði ykkur að góði!

Pasta með kryddjurtum og sveppum

Hráefni:

30 g smjör
1/2 meðalstór laukur, smátt saxaður
225 g sveppir, skornir í sneiðar
1 msk sítrónusafi
3 msk steinselja, söxuð
1 tsk timjanlauf
1/2 msk graslaukur, saxaður
2 msk óreganó, saxað
900 ml grænmetis- eða kjúklingasoð
125 ml rjómi
300-400 g spagettí
30 g rifinn parmesanostur
sjávarsalt og svartur pipar

Aðferð:

Bræðið smjörið í stórum potti yfir meðalhita. Bíðið þar til smjörið freyðir og bætið síðan lauknum saman við. Setjið lok á pottinn og eldið laukinn í 5-10 mínútur. Setjið laukinn í skál til hliðar og eldið sveppina. Saltið og piprið þá og hellið sítrónusafanum saman við. Bætið lauknum aftur í pottinn, ásamt 1 matskeið af steinselju, timjanlaufinu, graslauknum og óreganó. Hrærið soði og rjóma saman við og náið upp suðu. Látið malla í 3-4 mínútur. Kryddið eftir smekk. Bætið pastanu saman við og sjóðið í 4 mínútur. Slökkvið undir og setjið lok á pottinn. Leyfið þessu að standa í 4-5 mínútur, eða þar til pastað er eldað. Skreytið með parmesan og restinni af steinseljunni og berið strax fram.