Ég elska pítsu. Mér finnst það hinn fullkomni matur. Því finnst mér einstaklega gaman að búa til pítsu heima, tala nú ekki um þegar að veðrið er gott og hægt að grilla pítsurnar.

Þessa uppskrift fann ég á síðunni Foodess og féll alveg fyrir þessari pítsu. Því þurfti ég að deila henni með ykkur öllum!

Rækjupítsa

Pítsadeig – Hráefni:

4 bollar hveiti
1 bréf þurrger
1½ tsk sjávarsalt
2 msk ólífuolía
1¾ bolli volgt vatn

Aðferð:

Blandið hveiti, geri og salti saman í skál. Bætið olíu og vatni saman við og blandið vel saman. Hnoðið deigið í tíu mínútur og bætið við meira hveiti ef þarf. Berið smá olíu í skál og leyfið deiginu að hefast þar í klukkustund. Skiptið deiginu í fjóra hluta og fletjið hvern hluta út. Leyfið þessu að hvílast í um tíu mínútur.

Pítsa – Hráefni:

2 msk smjör
1 stór hvítlauksgeiri, smátt saxaður
225 g risarækjur, hreinsaðar
2 msk hveiti
¾ bolli mjólk
½ tsk sjávarsalt
1½ bolli rifinn ostur
2 msk steinselja, smátt skorin

Aðferð:

Hitið ofninn í 220°C. Bræðið smjörið í stórri pönnu yfir meðalhita. Steikið hvítlaukinn í um mínútu. Bætið rækjum saman við og eldið í um 5 mínútur. Fjarlægið rækjurnar úr pönnunni en skiljið hvítlaukssmjörið eftir. Setjið hveiti í meðalstóra skál og blandið 2 matskeiðum af mjólk saman við þannig að mjúk kvoða myndast. Hrærið restinni af mjólkinni varlega saman við og blandið síðan hveitiblöndunni saman við hvítlaukssmjörið. Saltið og látið malla yfir meðalhita þar til sósan þykknar. Deilið deiginu á milli pítsabotnanna, setjið síðan ost og rækjur ofan á. Bakið í 15 til 20 mínútur. Skreytið með steinselju og berið fram.