Mánudagar eru kannski ekki klassískir pítsudagar, en þurfum við ekki smá matargleði í lífið í skugga heimsfaraldurs og annars miður skemmtilegs? Þessa uppskrift fann ég á eftirlætisvefnum mínum, Delish, og þessi pítsa er algjört dúndur!

Hvít pítsa

Hráefni:

1 tilbúið pítsadeig (eða búið það til – uppskrift hér)
grænmetisolía
hveiti
¼ bolli ólífuolía
4 hvítlauksgeirar, skornir þunnt
1½ bolli ricotta ostur (eða kotasæla)
½ tsk. salt
½ tsk. pipar
1 msk. ferskt oreganó, saxað
1 tsk. ferskt timjan, saxað
2 bollar rifinn ostur
¼ bolli rifinn parmesan ostur
chili flögur (má sleppa)

Aðferð:

Hitið ofninn í 250°C. Smyrjið tvær ofnplötur með grænmetisolíu og drissið hveiti yfir. Hitið ólífuolíu í litlum potti yfir meðalhita. Bætið hvítlauk út í og eldið í 1 mínútu. Takið af hitanum. Hellið olíunni í gegnum fínt gatasigti og saltið aðeins. Setjið olíuna til hliðar. Blandið ricotta osti, salti, pipar og helmingnum af kryddjurtunum saman í lítilli skál. Fletjið út deigið og setjið á ofnplötur. Penslið deigið með hvítlauksolíunni og skiptið ostinum jafnt á milli botnanna. Deilið ricotta-blöndunni jafnt á milli. Bakið í 15 til 17 mínútur. Skreytið með restinni af kryddjurtunum, hvítlauknum sem stóð eftir þegar að olían var síuð og chili flögum.