Hver elskar ekki pönnukökur? Sérstaklega um helgar þegar gefst meiri tími til að leika sér í eldhúsinu. Ég fann þessa pönnukökuuppskrift á bloggsíðunni Lolo’s Desserts og féll kylliflöt. Algjört dúndur!

Pönnukökur með hvítu súkkulaði og bláberjum

Hráefni:

2 bollar hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
2 egg
2 msk. smjör, brætt
2 bollar súrmjólk
1 bolli bláber, fersk eða frosin
½ bolli hvítt súkkulaði, grófsaxað

Aðferð:

Blandið hveiti, salti, lyftidufti og matarsóda saman í skál og setjið til hliðar. Skiljið eggin, setjið hvíturnar í eina skál og rauðurnar í aðra. Stífþeytið eggjahvíturnar. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær lýsast. Bætið brædda smjörinu saman við eggjarauðurnar og þeytið vel. Bætið síðan súrmjólkinni saman við og þeytið.

Bætið eggjarauðublöndunni saman við þurrefnin og blandið létt saman. Blandið eggjahvítunum varlega saman við með sleif eða sleikju og síðan er bláberjunum og hvítu súkkulaði blandað varlega saman við.

Bræðið smjör yfir meðalhita og steikið síðan pönnukökurnar í 2 til 3 mínútur á hvorri hlið. Berið strax fram.