Góðgerðarsamtök í Vancouver réðust nýlega í rannsóknarverkefni sem þykir hafa leitt í ljós á afgerandi hátt að peningagjöf til heimilislauss fólks er hreint ekki eins slæm hugmynd og margir vilja gjarnan telja.

Verkefnið, The New Leaf Project, tók fyrir 115 heimilislausar manneskjur sem allar voru lausar við alvarlega geðræna kvilla eða fíknivanda, og gaf 50 þeirra 7500 Kanadadali (tæpar 800.000 krónur íslenskar) í þeim tilgangi að sjá hvort þau gætu snúið við blaðinu.

Niðurstöðurnar létu ekki á sér standa. Einu ári síðar áttu langflestir viðtakendanna 1000 dollara (105.000 krónur) eftir í sparifé og voru fullfær um að brauðfæða sig á hverjum degi.

Meðalaldur þátttakenda var 42ja ára og voru þriðjungur þeirra foreldrar. Þau höfðu að meðaltali verið heimilislaus í hálft ár, og hafði fjórðungur þeirra haft vinnu á einhverjum hluta tímabilsins. Rannsóknin sendi út mánaðarlegar og ársfjórðungslegar kannanir á aðstæðum og útgjöldum þátttakendanna.

Þó mörgum kynni að gruna að peningunum yrði eytt í áfengi eða fíkniefni komu niðurstöðurnar í þá veruna hressilega á óvart. Eftir heilt ár af því að eyða peningum í hluti sem þau álitu mikilvæga minnkaði meðaleyðsla í áfengi og fíkniefni um 39%, og eru leiddar líkur að því að þessir einstaklingar hafi áttað sig á því að hér væri komið raunverulegt tækifæri til að skapa breytingar á aðstæðum sínum.

Sjálfstæð skýrsla sem gerð var upp úr rannsókninni sýndi einnig að þátttakendur fluttu að meðaltali inn í húsnæði tveimur mánuðum fyrr en þeir sem ekki fengu fjármunina að gjöf. Þó tveir mánuðir virðist ekki langur tími í fyrstu, þá eru þeir það svo sannarlega á götunni.

52% peninganna sem eytt var fór í mat og leigu, 15% fór í lyf og samgöngur, og að meðaltali fóru $700 (74.000 krónur) hjá hverri manneskju í stærri vörukaup, svo sem reiðhjól eða tölvu.

Sigur fyrir alla

Rannsóknin komst að lokum að þeirri niðurstöðu að með því að gefa heimilislausu fólki 7500 dollara hafi British Columbia-ríki sparað sjálfu sér að meðaltali 600 dollara (63.000 krónur) á manneskju, ef miðað er við ársútgjöld fyrir neyðarþjónustu.

„Með því að eyða færri nóttum í athvörfum sparaði þessi hópur athvarfakerfinu um það bil 8100 dollara á manneskju, sem verður að 405.000 dollurum (tæpum 43 milljónum króna) samtals yfir árið,“ stóð í skýrslunni. „Þegar kostnaðurinn við fjárgjöfina er tekinn með þá erum við að sjá 600 dollara sparnað fyrir samfélagið á hverja manneskju.“

„Fjárgjafir sem þessar bjóða upp á val, stjórn og kaupmátt á úrslitastundu í lífi fólks,“ stendur í stefnutillögu sem gefin var út í kjölfar rannsóknarinnar.

Þetta er ekki bara hjálparhönd. Þetta eru skilaboð um það að samfélagið hafi trú á þeim.

„Með því að koma í veg fyrir að fólk festist á götunni getum við breytt lífum fólks og á sama tíma sparað samfélagsauðlindir sem gætu betur nýst annarsstaðar.“

Einn af viðtakendunum í rannsókninni sagði að peningarnir hefðu veitt henni von, ásamt þeirri festu og hugrekki sem þurfti til að snúa við blaðinu. Annar sagði frá því að hann hefði getað tekið tölvunámskeið sem náði að beina honum inn á draumabraut sína, að vera félagsráðgjafi fyrir fólk í fíknivanda.