Rauðvínskakan sem þú þarft í lífið
Fullkomin á köldum og dimmum vetrarkvöldum.


Hvað er betra á dimmum og köldum vetrarkvöldum en ljúffeng kaka? Jú, ljúffeng rauðvínskaka. Þessi uppskrift er af matarvefnum Delish og mæli ég innilega með þessari köku.
Rauðvínskaka
Hráefni:
170 g dökkt súkkulaði
115 g mjúkt smjör
2 msk. kakó
½ bolli sykur
¼ bolli púðursykur
2 stór egg
¼ bolli rauðvín
¾ bolli hveiti
½ tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C og takið til ferkantað form, sirka 20 sentímetra stórt. Smyrjið það vel. Bræðið súkkulaði og smjör saman yfir vatnsbaði og leyfið blöndunni að kólna aðeins. Hrærið víni, sykri og púðursykri saman við og síðan eggjunum, einu í einu. Blandið hveiti, kakó, vanilludropum og salti saman við þar til allt er blandað saman. Hellið deiginu í formið og bakið í 20 til 25 mínútur. Leyfið kökunni að kólna, dustið smá flórsykri yfir hana og berið fram.