HjólreiðafólkSegja má að það sé þrennt sem skiptir mestu máli fyrir öryggi fólks í umferðinni. Í fyrsta lagi að allir, bæði gangandi, hjólandi og akandi, þekki umferðareglurnar vel og fari eftir þeim, í öðru lagi að fólk fari varlega og í þriðja lagi að allir taki öllum stundum fullt tillit til annarra vegfaranda.

Það er reyndar alveg sama hversu lærð við erum í reglunum; við gerum öll fyrr eða síðar mistök í umferðinni sem gætu eða hefðu getað kostað óhapp, jafnvel slys. Í slíkum tilfellum hefur varkárni annarra og tillitssemi oft bjargað málunum.

En þar með er ekki sagt að þekking á reglunum skipti ekki gríðarlegu máli, ekki síst þekking á þeim hluta þeirra sem e.t.v. virðast við fyrstu sýn ekki snúast um manns eigin ferðamáta heldur um ferðamáta þeirra sem kjósa að komast á milli staða á annan hátt. Þannig gætu t.d. ýmsir skilið hið ágæta orð „hjólreiðareglur“ þannig að þær giltu þá ekki um t.d. ökumenn bifreiða, sem gætu þá sleppt því að kynna sér þær almennilega. En þetta er auðvitað fjarri lagi.

Sumt sem hjólreiðafólk má mega aðrir ekki

Mikilvægt er að muna að á meðan gangandi vegfarendur mega ekki ganga langsum á götum og akandi mega ekki aka á gangstéttum og göngustígum má hjólreiðafólk, líka það sem hefur fjárfest í spandexbuxum á netinu, hjóla bæði á götum, göngustígum og gangstéttum. Það er því áríðandi að bæði gangandi og akandi vegfarendur kynni sér vel reglur um hjólreiðar á „þeirra svæði“ og endurskoði e.t.v. þá afstöðu að það sé einungis hjólafólk sem eigi að fara eftir þeim.

Vissulega gilda margar hjólreiðareglur fyrst og fremst um hjól og hjólreiðafólk eins og reglur um búnað, notkun hjálma, aldurstakmörk og fleira en við erum hér að tala um hjólreiðareglur sem gilda fyrir alla umferð.

Hvenær á hjólreiðafólk t.d. að hjóla á miðri akgrein?

Sem dæmi um það má nefna reglurnar um annars vegar víkjandi og hins vegar ríkjandi stöðu hjólreiðafólks á götum. Þótt hjólreiðafólk eigi almennt og oftast að víkja sem lengst til hægri á götum, án þess þó að hjóla yfir ræsi eða út í móa, hvetja reglurnar til að það taki í ákveðnum tilfellum svokallaða „ríkjandi stöðu“ á götum, þ.e. hjóli þá á miðri hægri akgrein og hafi um leið og vísvitandi miklu meiri áhrif en venjulega á umferð bíla sem á eftir þeim koma.

Ef þú ert ein eða einn af þeim ökumönnum sem hélst að svarið væri „aldrei“ eða ert ekki 100% klár á hvenær hjólreiðafólk bæði má og á að hjóla á miðri akgrein fyrir framan þig þá ertu búin(n) að sanna fyrir þér að þú þekkir umferðareglurnar ekki nógu vel.

Skýrar og aðgengilegar reglur og myndbönd

Á vefsíðu Samgöngustofu er að finna skýrar, ítarlegar og afar vel uppsettar upplýsingar um hjólreiðareglur, bæði þær sem snúa fyrst og fremst að hjólreiðafólki svo og þær sem snúa ekki síður að ökumönnum og gangandi fólki.

Nokkrar af mikilvægustu umferðarreglunum hafa einnig verið útskýrðar og sviðsettar í fræðslumyndböndum frá Samgöngustofu. Við birtum hér fyrir neðan fjögur af þeim myndböndum sem snúa að hjólreiðum og hvetjum alla sem þetta lesa að renna snöggvast í gegnum þau. Þeirra sem það gera bíður óvæntur bónus.

Það er nánast öruggt að ef þú hefur ekki kynnt þér þessi myndbönd áður mun hluti af því sem kemur fram í þeim vera eitthvað sem þú vissir ekki (en gæti forðað óhappi ef þú værir með það á hreinu) á meðan annað sem þú vissir, eða „vissir svona sirka“ verður aldrei of oft móttekið.

Bónus fyrir að komast alla leið hingað er lagið Nine Million Bicycles með Katie Melua.:

Ljósmyndir: Patrick Henry / Unsplash