Myndband af New York-búanum Amy Cooper hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla síðan á mánudagskvöld en þar sést hún hringja í neyðarlínuna 911 og óska eftir aðstoð lögreglu vegna svarts manns sem hún segir að ógni lífi sínu. Af manninum, Christian Cooper, stafaði hins vegar engin hætta heldur hafði hann einungis bent Amy á að hafa hundinn sinn í taumi eins og skylt er í þessum hluta Central Park … og uppskar þá þessi viðbrögð.

Fyrir vikið hefur Amy nú verið rekin úr vinnu og eftir að hafa séð myndbandið tók lögreglan einnig hundinn af henni og kom honum til hundaskýlisins sem hafði látið Amy fá hann. Sjálf hefur Amy nú beðið afsökunar á hegðun sinni og segir líf sitt vera í rúst eftir þetta.

 

Hvað gerðist?

Málavextir eru þeir að Christian, sem er áhugamaður um fugla og meðlimur í fuglaskoðunar­félagi, var eins og oft áður staddur í þeim hluta Central Park sem nefnist The Ramble. Þar má finna ýmsar trjátegundir og alls kyns blóm og jurtir auk þess sem þar búa eða koma við um 230 fuglategundir á ári hverju. Á þessu svæði er lausaganga hunda stranglega bönnuð eins og sjá má á áberandi skiltum.

Þar sem Christian er á gangi kemur laus hundur hlaupandi og eigandinn, Amy, á eftir. Christian bendir henni þá á að hafa hundinn í taumi eins og reglurnar segja til um. Amy þráaðist við að festa tauminn og á milli þeirra urðu einhver orðaskipti um að hundar mættu ekki að ganga lausir þarna. Þá sagði Christian: „Sko, ef þú ætlar að gera það sem þú vilt þá geri ég það sem ég vil og þér mun ekki líka það.“

Við þessi orð segist Amy hafa orðið hrædd um líf sitt. Það sem Christian var hins vegar að tala um er að hann gengur um með hundanammi á sér og tekur það upp ef fólk þráast við að hafa hundana sína í taumi þar sem það er bannað.

„Ég lærði það að besta leiðin til að fá fólk til að kalla á hundana sína og setja þá í taum er að gefa þeim hundanammi. Hundaeigendum líkar ekki við að ókunnugur maður sé að gera það upp úr þurru, kalla á hundinn og setja hann í taum,“ útskýrði hann í viðtali við CNN.

Christian tók svo upp hundanammið og um leið ákvað Amy að festa tauminn við ól hundsins.

Myndbandsupptakan hefst

Það var þá sem ballið byrjaði. Amy hótaði að kalla á lögregluna og við þau orð tók Christian upp símann og byrjaði að taka upp myndbandið hér fyrir ofan, en það útskýrir sig sjálft.

Eftir að hann segir „takk fyrir“ og slekkur á upptökunni gekk hann út úr garðinum og virðist Amy hafa gert það líka strax því þegar lögreglan kom voru þau hvorug á staðnum.

Christian sett síðan myndbandið á Facebook-síðuna sína og fór það þegar í slíka fjöldadreif­ingu að bandarískir fréttamiðlar komust ekki hjá því að taka eftir því og fór fréttin ásamt myndbandinu út um allt í gærmorgun.

Í kjölfarið ákvað vinnuveitandi Amyar, fjárfestingafélagið Frank Templeton, að segja henni upp störfum tafarlaust á þeim grundvelli að rasismi væri ekki liðinn innan þess. Sjá má tilkynningu félagsins á Twitter.

Amy, sem í samtali við CNN baðst afsökunar á hegðun sinni, á nú yfir höfði sér ákæru fyrir að hringja af þarflausu í neyðarlínuna, reyna að koma sök á saklausan aðila og yfirgefa vettvang áður en lögreglan kemur, en við þessu öllu geta legið þung viðurlög í New York og víðar. Auk þess eru margir dýravinir reiðir vegna meðferðar hennar á hundinum í myndabandinu.