Náttúruverndarstarfsmenn rákust nýlega á gríðarstóran kóngulóarvef í skógi í Missouri-ríki í Bandaríkjunum, og segja sumir að hann væri nógu stór til að stöðva mannfólk. Starfsmaður náttúruverndardeildar Missouri rakst á vefinn fyrir skömmu og deildi mynd á Facebook í síðustu viku. Myndin hefur skotið mörgum skemmtilegan skelk í bringu, sérstaklega í ljósi þess að hann uppgötvaðist nú í mánuði Hrekkjavökunnar.

Vefurinn, sem er hringlaga og afar flókinn, var spunninn af kóngulóartegund sem heitir hjólakónguló og fyrirfinnst nánast allsstaðar í heiminum. Þó hann brúi bilið á milli tveggja trjáa þá er hann í raun bara aðeins stærri en matardiskur. Sjónarhorn ljósmyndarinnar lætur hann þó líta út fyrir að vera mun stærri.

Sagði náttúruverndardeildin einnig í færslunni að hjólakóngulær væru algengar í Missouri. „Vefir þeirra eru mest áberandi síðsumars að hausti, þegar vefir og fullvaxta kóngulær ná hvað mestri stærð,“ skrifuðu þau.

Sjá má Facebook-færsluna hér fyrir neðan: