Hvern dreymir ekki um að upplifa dálítið útlenska stemningu þessa dagana? Líða eins og maður hafi skroppið aðeins til Japan og njóti þar gróðurs, náttúru og fegurðar í sólskininu? Svona draum er hægt að fá uppfylltan í næstu gróðrarstöð enda bjóða slík fyrirtæki upp á plöntur frá öllum heimshornum.  Þannig er hægt að flakka á milli heimsálfanna á einfaldan hátt heima í garði.

Rósakirsi er sérlega skemmtilegt lítið garðtré eða stór runni sem stendur í fullum blóma í görðum margra landsmanna þessa dagana.  Lengi vel töldum við Íslendingar að blómstrandi kirsuberjatré væru of viðkvæm fyrir íslenskar aðstæður, vorið of kalt og sumarið of stutt en þetta fallega bleikblómstrandi skrautkirsi hefur sýnt og sannað að margur er seigari en maður heldur.  Með auknu skjóli í þéttbýli landsins hafa skapast vænleg skilyrði fyrir plöntutegundir sem áður þrifust illa við íslensk skilyrði en eru nú óðum að verða staðalbúnaður í görðum landans.

Rósakirsi heitir á latínu Prunus nipponica var. kurilensis og hefur yrkið Ruby verið einna duglegast við íslenskar aðstæður.  Tegundin þarf sólríkan vaxtarstað og jarðveg sem er hæfilega rakur og frjósamur, hún þolir ekki að standa í bleytu og er heldur ekki mjög þurrkþolin.  Fallegast er rósakirsið í skjóli en það er þó töluvert vindþolið. Við vindasamar aðstæður geta blómin hins vegar orðið frekar tætingsleg og ná ekki að sýna sitt fegursta.

Haustlitir rósakirsis eru mikið sjónarspil, laufblöðin fara úr fallega djúpgrænum og gljáandi lit yfir í logandi rauða og appelsínugula haustliti, sem eru ekki síður fallegir en bleika blómasprengjan á vorin.  Það má því segja að garðeigandinn fái tvisvar fyrir sama peninginn, litadýrð bæði vor og haust.

Þessi skemmtilegu og duglegu tré lífga upp á hvaða garð sem er á vorin því þau eru í fullum blóma um það leyti sem önnur tré eru að byrja að laufgast. Þau skera sig því verulega úr umhverfinu og fanga augað auðveldlega. Það getur því verið freistandi að kaupa sér heila herdeild af rósakirsum og skella víðs vegar um garðinn en þá er rétt að leita aftur í smiðju Japana og skoða hvernig þeir nota svona blómstrandi tré í sínum görðum. Þar á bæ er oftast látið duga að nota kirsuberjatré stakstæð í einkagörðum en ekki mörg saman í hóp, rétt eins og þegar einn vel valinn skartgripur gerir meira fyrir heildarútlitið en að hrúga saman öllu glingrinu úr skartgripaskríninu.

Að lokum má til gamans geta þess að blómabærinn Hveragerði hefur valið rósakirsi sem einkennisplöntu bæjarins og hefur hvatt bæjarbúa til að gróðursetja hana í garða sína.