Átta ára gamall kanadískur drengur að nafni Sam fékk á dögunum að upplifa í fyrsta sinn eitthvað sem við flest erum þaulvön: hann fékk að sjá stjörnurnar.

Sam þjáist af sjaldgæfum arfgengum augnsjúkdómi sem heitir retinitis pigmentosa (RP) og veldur stigvaxandi hrörnun á sjónhimnunni.

„Þú hættir að geta skynjað ljós,“ sagði Elise Heon, læknir við Sick Kids-spítalann, í samtali við fréttastöðina CTV News. „Þú endar í myrkri sem kemur hægt og rólega en þó sleitulaust… sjónsviðið hjá þér minnkar og minnkar og minnkar.”

Sam hafði afar takmarkaða sjón, sérstaklega að kvöldi til. Sjónarspil sem við flest tökum alfarið sem gefnu — stjörnurnar, flugvélar á ferð, jafnvel okkar eigin skór — voru honum alls ósýnileg. 

Engin meðferð var til við sjúkdómnum lengst af, en nú hefur komið fram ný tegund genameðferðar sem hefur gert gífurlega mikið fyrir sjón Sams og annarra sjúklinga. Gengur hún þannig fyrir sig að heilbrigð útgáfa af geninu sem orsakar blinduna er hýst inni í óvirkum vírus og svo sprautað inn í sjónhimnuna. Nærvera heilbrigða gensins gerir frumunum svo kleift að framleiða prótínin sem breyta ljósi í rafmerki.

Á innan við viku eftir að meðferðin hófst fór Banon að taka eftir framförum, og segir hún að sjón Sams hafi batnað statt og stöðugt í heilt ár eftir að hann fór í aðgerðina. Hann hafi öðlast gríðarlegt sjálfstraust, geti klætt sig án aðstoðar, geti séð í myrkri og þurfi ekki lengur ljósa við þegar er skýjað úti.

„Hann getur verið venjulegt barn núna,” sagði Banon. „Þetta er vonarsaga… Barn sem sagt hefur verið við „svona er þetta bara,” og núna, þegar hann lítur upp á kvöldin, þá getur hann séð stjörnur.”

Sjáið frétt CTV hér: