Salatplöntur eru auðræktaðar, fljótsprottnar og ekkert salat bragðast betur en það sem maður hefur ræktað sjálfur. Til er fjöldinn allur af salattegundum en allar eiga þær það sammerkt að þurfa ekki nema 6-8 vikna ræktunartíma frá sáningu fram að uppskeru. Hægt er að velja um salat með grænum eða rauðleitum blöðum, yrki með mildu eða sterku bragði, jafnvel sinnepsbragði, allt eftir áhuga og smekk. Einnig er talað um blaðsalat, plöntur sem mynda ekki eiginlegt salathöfuð heldur er hægt að tína af þeim blað og blað og svo höfuðsalat, sem myndar þétt og fallegt salathöfuð.
Fyrsta skrefið er að heimsækja garðyrkjuverslun og verða sér úti um fræ og mold, einnig er ágætt að fjárfesta í ílátum, s.s. pottum eða blómakerjum til ræktunarinnar, ef engin slík ílát eru til á heimilinu. Annars er um að gera að láta endurvinnsluáhugann njóta sín og safna skyr- eða jógúrtdósum eða öðrum viðeigandi ílátum undir ræktunina. Áður en ræktunaræfingarnar hefjast þarf bara að gera göt í botninn á öllum ílátum til að vatn renni vel frá plöntunum, götin er hægt að gera með skæraoddi eða skrúfjárni, 3-5 göt í botninn á hverri dós.


Hægt er að sá nokkrum fræjum saman í pottana, til dæmis af smágerðum tegundum eins og klettasalati og ýmsum blaðsalattegundum, t.d. um 10 fræ saman pott og leyfa þeim svo að vaxa þar upp án grisjunar. Fræjum af stórgerðari tegundum er sniðugt að sá í lítinn bakka með sáðmold. Halda þarf sáningunni rakri (ekki blautri) á meðan á spírun stendur og ágætt að nota lítinn úðabrúsa til að úða yfir bakkann. Setja má glæran plastpoka utan um sáninguna til að halda loftrakanum nægilega háum á meðan á spírun stendur, þegar fræið er farið að spíra vel er hægt að hafa pokann opinn lengur og lengur á daginn til að venja plönturnar við lægri loftraka. Sáðbakkann má hafa undir flúorljósum (eins og margir eru með undir efri eldhússkápum) eða í vestur- eða norðurglugga, sáningar í suðurgluggum enda oft sem misfallegar þurrskreytingar, þar er yfirleitt allt of heitt og bjart.


Þegar litlu plöntukrúttin eru komin með varanleg blöð, eru um það bil 1-2 cm langar, er þeim dreifplantað í pottana sem þær eiga að vera í í sumar og þá með um 5-10 cm millibili. Plönturnar eru tilbúnar í útiveru á svölunum ef veður leyfir upp úr miðjum maí en fram í byrjun júní þarf að fylgjast vel með veðurspá og kippa plöntunum inn ef spáir næturfrosti. Ef svalaeigandinn býr svo vel að eiga akrýldúk, þunnan hvítan dúk sem er mikið notaður í ræktun, þá getur verið sniðugt að breiða hann yfr plönturnar til að halda á þeim hita þegar kalt er í veðri.


Á meðan plönturnar stækka og dafna þarf að vökva þær reglulega, salat þolir ekki þurrk en moldin má þó ekki vera rennandi blaut, best er að halda henni jafnrakri. Mest hætta er á ofþornun er ræktað er í litlum ílátum. Ef moldin er sæmilega næringarrík þarf lítið að hugsa um áburðargjöf en gott er að vökva plönturnar með venjulegum inniblómaáburði (1 tappi af áburði í 2 l af vatni) tvisvar til þrisvar í viku síðustu 2-3 vikurnar. Í ræktun á svölum þarf ekki að hafa áhyggjur af sniglum, sem elska salat og önnur meindýr eru harla sjaldgæf á svölunum. Um leið og plönturnar eru farnar að þroskast vel má fara að taka neðstu blöðin af blaðsalati og borða þau jafnóðum en rétt er að leyfa höfuðsalati að mynda höfuð og uppskera þegar það er orðið nægilega stórt.

Til að tryggja ríkulega salatuppskeru allt sumarið er rétt að sá til nýrra plantna á um það bil 3ja vikna fresti og endurtaka ræktunarferlið. Ef eitthvað misheppnast er um að gera að gefast ekki upp, æfingin skapar salatmeistarann.