Hinn 26 ára gamli Adrià Ballester tók upp á því snemma þessa árs að stilla upp tveimur klappstólum fyrir framan Sigurbogann í Barselóna. Þeim við hlið er skilti sem stendur á „Ókeypis samræður!“ Hverjum sem er er velkomið að setjast og spjalla við hann um hvað sem þeim lystir, hvort sem er á spænsku, ensku eða katalónsku.

„Hugmyndin er að spjalla bara saman frjálst í smástund,“ segir Ballester. „Við lifum í heimi þar sem það er oft auðveldara að senda skilaboð til manneskju í öðru landi heldur en að bjóða nágrönnum okkar góðan daginn.“

Ballester setur á Instagram-síðu sína myndir og samræður frá framtakinu. Stundum líður honum eins og meðferðaraðila. „Maður heyrir jákvæðar sögur og stundum mjög erfiðar líka,“ segir hann. „Margir segja manni frá erfiðu tímabili í lífinu, kannski ástarsorg eða vinnumissi. Það er sitt lítið af hverju.“

Eftir að kórónaveirufaraldurinn byrjaði að geisa fór Ballester með samræðurnar á netið. Hann setti upp síðuna randompenpals.com, þar sem hægt er að fá „sóttkvíarpennavin á tíu sekúndum.“

Ballester ætlar sér að gefa út stefnuyfirlýsingu og vonast til þess að framtakið verði endurtekið í öðrum borgum, þó hann sé enn sem komið er eini götusamræðulistamaðurinn af sínu tagi.

View this post on Instagram

New People New Stories

A post shared by Free Conversations Movement (@freeconversations) on