Fyrir nokkrum árum síðan skrifaði ég pistil um það að ég liti ekki á þunglyndi sem sjúkdóm. Ástæðan fyrir því að ég hélt því fram var sú, að eftir að hafa glímt við þunglyndi og kvíða meirihluta ævi minnar, var ég farin að sjá jákvæðar niðurstöður af mikilli sjálfsvinnu með hjálp meðferðaraðila. Þar sem mér var farið að líða betur á sálinni dró ég þar af leiðandi þá ályktun að það sem væri að angra mig gæti ekki talist vera sjúkdómur.

Ég leitaði mér aðstoðar vegna þess að þó ég væri komin með þrjár háskólagráður og væri í fullri vinnu í flottu starfi, átti ég ennþá í erfiðleikum með að afreka hina einföldustu hluti. Mér fannst erfitt að svara í síma þegar ég vissi ekki hver var að hringja, að fara á fundi með viðskiptavinum sem voru kröfuharðir vegna þess að ég þurfti þá að standa með sjálfri mér, og var meira að segja kvíðin yfir því á hverjum einasta morgni að þurfa að mæta í vinnuna yfirleitt.

Ég var að nálgast þrítugt en hafði voðalega miklar áhyggjur af því að ég myndi klúðra einhverju, gera mistök, að ég væri ekki nógu klár eða að ég fengi ekki nógu góðar hugmyndir. Dagarnir mínir fóru gjarnan í það að hafa áhyggjur af öllu sem gæti mögulega farið úrskeiðis, vegna þess að það var hætta á því að ég myndi ekki vita hvernig ég ætti að bregðast við þegar eitthvað óvænt kæmi upp.

Ég vissi sjálf ekki af hverju ég átti svona erfitt, ekki fyrr en ég byrjaði að fara til meðferðaraðila sem gat útskýrt fyrir mér af hverju mér leið eins og mér leið. Þessi ráðgjafi hjálpaði mér að skilja að þessi kvíði og vanlíðan sem ég var að glíma við var eðlilegt viðbragð við því að alast upp við óheilbrigðar aðstæður og að það væri eðlilegt að eiga erfitt þegar maður hefur gengið í gegnum erfiðleika eða áföll.

Að komast að því að tilfinningar mínar og líðan voru heilbrigð viðbrögð við þeim áföllum sem ég hafði gengið í gegnum var mér mikill léttir. Ég gerði mér grein fyrir að þó svo að ég hefði talið mig þjást af þunglyndi og kvíða væri það ekki það sem væri raunverulega að hrjá mig, heldur það að ég hafði gengið í gegnum erfiðleika sem ég þurfti að vinna mig út úr. Í fyrsta skipti á ævinni hafði ég tól og tæki til þess að fara að vinna úr mínum kvíða og erfiðleikum.

Það var ákveðinn vendipunktur á minni vegferð að uppgötva að það væri eðlilegt að mér liði illa miðað við mínar aðstæður. Ég komst að því að sársauki sé í sjálfu sér ekki sjúkdómur, aðeins merki um að eitthvað sé að. Andleg og tilfinningaleg vanlíðan getur átt sér margar orsakir; allt frá því að fólk þjáist af þunglyndi sem sjúkdóm, til þess að það eigi erfitt vegna þess að það hefur gengið í gegnum erfiðleika eða áföll, eða jafnvel vegna þess að það sé að glíma við líkamlega erfiðleika sem hafa áhrif á geðheilsuna.

Ég myndi svo gjarnan vilja að það orðalag og þau hugtök sem notast er við þegar rætt er um andlega eða tilfinningalega vanlíðan sé endurskoðað svo að tekið sé tillit til þess að orsök slíkra erfiðleika eigi sér ekki sama uppruna hjá öllum. Það breytti nefnilega svo miklu fyrir mig að skilja að líðan mín átti sér orsakir, aðrar orsakir en það að eitthvað í heilanum á mér væri ekki að virka sem skildi.

Ég fékk sem betur fer hjálp við því sem var að angra mig. Með hjálp góðra ráðgjafa tókst mér að komast á þann stað að ná kvíðanum sem ég þjáðist af niður þangað til hann féll loks undir eðlileg mörk, auk þess sem ég lærði að vinna úr áföllunum sem ég hafði gengið í gegnum með því að hleypa gömlum og sársaukafullum tilfinningum og minningum upp á yfirborðið til úrvinnslu.

Ég er svo þakklát fyrir þá aðstoð sem ég fékk á sínum tíma, því hún kom mér af stað í minni sjálfsvinnu sem ég lít á sem verkefni fyrir lífstíð. Sú vinna sem ég hef þegar unnið hefur haft þau áhrif að mér líður mun betur dagsdaglega og treysti sjálfri mér fullkomlega til þess að takast á við þau vandamál sem koma upp í dagsins önn. Þökk sé öllu því sem ég hef lagt á mig er ég allt önnur manneskja í dag en ég var þegar ég lagði af stað í þetta heilunarferðalag.

Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.