Hvað gerðist?

Archie Williams var 22 ára íbúi í Baton Rouge í Louisiana-ríki sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið 4. janúar árið 1983 þegar hann var skyndilega handtekinn úti á götu. Í ljós kom að hann var grunaður um að hafa nauðgað og síðan reynt að myrða konu eina í borginni í desember 1982, en hún og annað vitni höfðu borið kennsl á hann af myndum sem lögreglan sýndi þeim.

En áður en við rennum yfir málið skulum við kíkja á frammistöðu Archies í hæfileikakeppninni America’s Got Talent sem sjónvarpað var á föstudag og hefur vakið gríðarlega athygli:

Ekkert mark tekið á framburði vitna

Eftir að Archie hafði verið handtekinn má segja að hann hafi ekki átt möguleika. Vitnisburði þriggja vitna um að hann hafi verið heima hjá sér þegar árásin á konuna átti sér stað var hafnað og engu máli skipti þótt fingraför hans hefðu ekki fundist á árásarstaðnum. Á þessum tíma var DNA-rannsóknum ekki til að dreifa, en þær, ásamt óþekktum fingraförum sem fundust á staðnum, hefðu sannað sakleysi hans eins og síðar átti eftir að koma í ljós.

Á grundvelli þess að konan sem ráðist var á og nágranni hennar sem kom að árásinni báru kennsl á Archie af myndum sem lögreglan sýndi þeim var hann dæmdur til lífstíðarfangelsis án möguleika á náðun eða reynslulausn.

Hafði ekki efni á lögfræðiaðstoð

Archie og fjölskylda hans áttu enga peninga til að standa straum af lögfræðiaðstoð sem e.t.v. hefði bjargað honum frá því að hljóta þennan dóm við áfrýjun málsins, enda var málatilbúnaði saksóknara verulega áfátt. Þess utan tók áfrýjunardómstóllinn ekkert tillit til vitna eða sönnunargagna sem voru honum í hag frekar en dómarinn sem dæmdi hann.

Archie var síðan sendur í Angóla-fangelsið, en svo nefnist ríkisfangelsið í Louisiana, eftir endanlegan dóm í apríl 1983.

Archie segir að eitt af því sem bjargaði honum frá andlegu niðurbroti á þessum tíma var annars vegar djúpur áhugi hans á tónlist og hins vegar að innan veggja fangelsisins hefði hann fljótlega kynnst mönnum sem hann gat stofnað hljómsveit með. Upp frá því má segja að æfingarnar með henni ættu hug hans allan og forðuðu honum frá því að hugsa stöðugt um óréttlætið sem hann hafði verið beittur.

Þar með er ekki sagt að hann hafi ekki stöðugt lifað í þeirri von að mál hans yrði tekið upp að nýju og að ný tækni í rannsóknaraðferðum myndi að lokum frelsa hann frá þessari martröð. En þangað til þyrfti tónlistin að duga.

Fann bjargvætt

Archie ásamt lögfræðingum Innocence Project sem unnu að lausn hans, þeim Emily Maw, Vanessu Potkin og Barry Scheck, öðrum stofnanda IP. Mynd: Innocence Project.

Árið 1995 frétti Archie af samtökunum Innocence Project sem lögfræðingarnir Barry Scheck og Peter Neufeld höfðu stofnað 1992 í því skyni að berjast fyrir fólk sem hafði ranglega verið dæmt fyrir glæpi sem það framdi ekki.

Archie skrifaði samtökunum bréf og það tók lögfræðingana ekki langan tíma að sjá að sönnunargögnin gegn honum héldu engu vatni. Vó þar þyngst að aðferðin sem lögreglan beitti til að fá fórnarlambið og vitnið til að bera kennsl á Archie sem hins seka var svo vafasöm og leiðandi að hálfu lögreglunnar að á henni var ekki hægt að taka neitt mark.

Málavextir

Málavextir voru þeir að þann 9. desember 1982 bankaði maður einn upp á hjá fórnarlambinu sem við skulum kalla A. Hann sagðist vera að safna fyrir góðgerðasamtök. A leist hins vegar ekkert á manninn og ákvað að hafna ósk hans og loka dyrunum. Skipti þá engum togum að maðurinn réðst til inngöngu, tók upp hníf og neyddi A inn í svefnherbergi á efri hæð hússins.

Þar neyddi hann hana til að fara úr fötunum og nauðgaði henni tvisvar. Að því búnu stakk hann hana með hnífnum og hefði lokið við að myrða hana ef nágranni konunnar, sem við köllum hér B, hefði ekki komið að húsinu, séð að dyrnar voru opnar og ákveðið að ganga inn og kalla á hana. Hún gekk síðan upp á efri hæðina og kom að þegar fautinn hafði stungið A.

Hann réðst umsvifalaust á B og um tíma leit út fyrir að hann myndi myrða þær báðar. A lá í blóði sínu í losti á gólfinu en B greip fyrir augun og kallaði upp að hún hefði ekki séð hann og gæti því ekki sagt til hans. Sem betur fer ákvað hrottinn að hlaupa út úr húsinu í stað þess að myrða hana og hvarf út í buskann.

B hringdi þegar á lögreglu og sjúkrabíl og A var flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús og hafði misst mikið blóð. Það tókst að bjarga lífi hennar og í ljós kom að stungan var ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið þannig að hún jafnaði sig líkamlega fljótar en á horfðist í fyrstu.

Vafasöm kennsl

Lögreglan lét svo bæði A og B lýsa árásarmanninum fyrir sér. Út úr þeim lýsingum komu tvær nokkuð ólíkar myndir. Að því búnu sýndi hún þeim myndir af fimm mönnum sem litu allir svipað út. Einn af þeim var Archie en enginn var af hinum raunverulega hrotta sem seinna átti eftir að koma í ljós hver var. Þykir með ólíkindum að hann hafi ekki verið á meðal þeirra sem voru á myndunum því hann var á þessum tíma  þekktur ofbeldismaður á þessu svæði.

Í fyrstu könnuðust hvorki A né B við neinn af mönnunum fimm á myndunum.

Næst sýndi lögreglan, eða sagðist vera að sýna þeim, myndir af öðrum fimm mönnum, en á meðal þeirra var Archie á ný. Hinum fjórum hafði verið skipt út.

Aftur töldu hvorki A né B sig geta borið örugg kennsl á neinn þeirra.

Í þriðja sinn gerði lögreglan það sama. Hélt myndinni af Archie inni en skipti út hinum fjórum.

Í þetta sinn töldu þær A og B sig sjá einhver líkindi með Archie og árásarmanninum og í stuttu máli þá sannfærði lögreglan þær um að hann væri sá seki.

Þetta sem hér er sagt er einföldun á því sem fór þarna fram en lýsir samt aðferðinni sem lögreglan notaði til að kalla fram hugtengsl A og B við myndina af Archie og að lokum benda á hann sem árásarmanninn. Þessi aðferð hefur fyrir löngu verið fordæmd og myndi ekki halda í neinu slíku máli í dag. En árið 1983 komst lögreglan í Baton Rouge upp með þetta og á þessum ábendingum A og B var Archie dæmdur.

Augljóst ranglæti – en baráttan var rétt að byrja

Þetta sáu lögfræðingar Innocence Project strax og ákváðu að taka að sér málið. En þar með var björninn langt frá því að vera unninn því við tók 24 ára barátta við „kerfið“, þ.e. yfirvöld í Louisiana, sem höfnuðu því trekk í trekk að afhenda lögfræðingunum rannsóknargögnin og að skoða málið á nokkurn hátt að nýju. Archie hafði jú verið dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn og náðun, og við það sat.

Um þessa áralöngu baráttu lögfræðinga Innocence Project við yfirvöld í Louisiana væri í sjálfu sér hægt að skrifa heila (kennslu)bók. Við förum því ekki nánar út í hana hér en bendum þeim sem áhuga hafa á heimildir hér fyrir neðan þar sem hægt er að lesa meira um þá baráttu og hvernig hún gekk fyrir sig í öll þessi ár.

Við nefnum þó hér að eftir að lögfræðingarnir höfðu haft áfangasigur í baráttunni og fengið aðgang að rannsóknargögnum leiddi DNA-rannsókn í ljós að ekkert DNA-sýni í þeim tilheyrði Archie. Það sem átti þó að lokum eftir að skipta mestu voru fingraför af óþekktum aðila sem höfðu fundist á vettvangi glæpsins. Þau voru nú send til FBI þar sem miklar framfarir höfðu orðið á greiningu fingrafara síðan 1983.

Fingraförin skiptu sköpum

Archie var að sjálfsögðu fagnað vel af vinum og fjölskyldu.

Í ljós kom að fingraförin tilheyrðu dæmdum morðingja og nauðgara, Stephen Forbes. Sá hafði um langt skeið verið þekktur ofbeldismaður á svæðinu og var árið 1986 handtekinn fyrir samskonar glæp og Archie hafði verið dæmdur fyrir. Við yfirheyrslur játaði hann á sig fjóra aðra slíka glæpi sem framdir höfðu verið árin á undan, en var aldrei spurður um glæpinn í desember 1982 sem Archie sat inni fyrir. Stephen þessi átti við geðræna sjúkdóma að stríða og dó í fangelsi 1996.

Þar með var búið að sýna fram á yfirgnæfandi líkur á að Archie væri saklaus og var hann látinn laus úr fangelsinu 21. mars 2019. Hann sækir nú mál gegn Louisiana-ríki fyrir hina óréttlátu meðferð sem hann sætti og má reikna með að honum verði dæmdar háar skaðabætur.

Sjálfur segir Archie að fyrir utan tónlistina muni hann nú helga líf sitt baráttu fyrir aðra sem eins og hann hafa verið dæmdir saklausir og sitja í fangelsum víðs vegar í Bandaríkjunum.

———————————

Um mál þetta hefur mikið verið skrifað á netinu. Helsta heimild þessarar greinar er vefsíða Innocence Project (þar sem vísað er áfram í fjölmargar heimildir) og eru ljósmyndir birtar með þeirra leyfi.