Leikarinn Geno Silva, sem er hvað þekktastur fyrir að leika í kvikmyndinni Scarface frá árinu 1983, er látinn 72ja ára að aldri. Silva var með heilabilun sem að lokum dró hann til dauða þann 9. maí síðastliðinn. Hollywood Reporter segir frá.

Silva lék leigumorðingja Alejandro Sosa, The Skull, í Scarface. The Skull var ekki maður margra orða og í raun sagði Silva ekki eitt aukatekið orð í myndinni. Hann spilaði hins vegar veigamikið hlutverk í dauðdaga aðalpersónunnar Tony Montana, sem leikin er af Al Pacino.

Silva gerði ýmislegt annað á ferlinum og lék til að mynda í sjónvarpsþáttunum Alias, Star Trek: Enterprise, Walker Texas Ranger og Fantasy Island. Þá lék hann einnig í kvikmyndunum Mulholland Drive, Zoot Suit, Amistad og Tequila Sunrise.

Leikarinn John Ortiz, sem var góður vinur Silva, birtir falleg orð um vin sinn heitinn á Facebook.

„Geno var vinur minn. Föðurímynd. Listrænn stríðsbróðir. Einhver sem ég gat trúað og treyst. Hann elskaði lífið. Hann var örlátur, ástríðufullur, frakkur, sterkur, gáfaður, glaður,“ skrifar Ortiz meðal annars.

Heartbroken at the passing of Geno Silva. My love and prayers go out to his amazing wife, Pam, their wonderful daughter…

Posted by John Ortiz on Monday, May 11, 2020

Silva skilur eftir sig eiginkonuna Pamelu, dótturina Luciu og tvö barnabörn.