Aðdáendur njósnarans James Bond eru eins misjafnir og þeir eru margir, og sýnist hverjum sitt um gæði þeirra leikara sem hafa í gegnum tíðina hreppt hlutverk hins drápsglaða leyniþjónustumanns. Breska tímaritið Radio Times gerði á dögunum skoðanakönnun um efnið meðal lesenda sinna, þó með aðeins öðru sniði en venjulegast sést.

Um var hér semsagt að ræða riðlakeppni, þar sem tveir leikarar í senn áttust við í einstaklingskeppnum. Sérstaklega kom á óvart hver datt út í fyrstu umferð — enginn annar en Daniel Craig, sem hefur átt gríðarlega miklum vinsældum að fagna í hlutverkinu undanfarin 14 ár. Þó er það kannski ekki að furða ef litið er til þess að mótherji hans í fyrstu umferð var jú konungurinn sjálfur, Connery. 

Mest kom þó á óvart hver endaði í öðru sæti keppninnar, en var það enginn annar en Timothy Dalton, sem lék njósnarann einungis í tveimur myndum, The Living Daylights (1987) og Licence To Kill (1989). Óvíst er hvort þessari velgengni hans má þakka riðlaformi keppninnar eða breyttum tímum í almenningsáliti. Dalton hefur löngum verið almennt talinn einn óvinsælasti Bondinn, enda var ívið grynnra á sjarmanum hjá honum en flestum hinum, lítið sem ekkert um húmor og heldur meira um kraumandi bræði og hefnigirni.

Þeir sem lesið hafa bækur Ians Fleming um James Bond, þaðan sem persónan er upprunnin, hafa hins vegar oft haldið því fram að Dalton sé í raun sannastur hinum upprunalega karakter eins og Fleming skrifaði hann. Bond bókanna er nefnilega ekki sami sjarmör og Connery og Roger Moore léku (og nýtur ekki sömu kvenhylli), heldur er hann tilfinningakaldur hrotti með áfengisvandamál sem er uppfullur gremju gagnvart starfsgrein sinni — þrátt fyrir að vera einn þeirra bestu í heiminum í henni. Meðal annars hefur því verið haldið fram að síðari myndin sem Dalton lék í, Licence to Kill, hafi verið mun nærri söguþræði Bond-bókarinnar Live And Let Die heldur en myndin sem kom út undir því nafni árið 1973.

Niðurstöður könnunarinnar hjá Radio Times má sjá í heild sinni hér.

Hver er besti Bondinn að þínu mati? Láttu okkur vita í athugasemdunum!