Kvikmyndaheimurinn bíður enn með öndina í hálsinum eftir því hvort stórmynd Christophers Nolan, Tenet, verði frumsýnd 17. júlí eins og til stóð áður en kórónaveiran setti strik í reikninginn.

Öllum öðrum bandarískum stórmyndum, eða svokölluðum „blockbusters“, sem frumsýna átti í júní og júlí hefur verið frestað, en eins og við höfum áður fjallað um eru þessar myndir þær langmikilvægustu fyrir kvikmyndahús í flestum löndum, a.m.k. þeim vestrænu.

Það líta því mörg þeirra svo á að verði Tenet frestað sé júlí nokkurn veginn ónýtur bíómánuður. Fyrir kvikmyndaiðnaðinn þá væri það mikið áfall og ekki á bætandi við það sem á undan hefur gengið.

Líkurnar á því að þetta fari ekki á versta veg hafa sem betur fer aukist talsvert að undanförnu enda eru flest ríki að gera sitt besta til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Óvissan er þó enn mikil og þá sérstaklega vegna aðvarana um stóraukna smithættu eftir því sem fleira fólk kemur saman í sama rými. Blossi smit upp aftur veit enginn hvað gerist.

En … alla vega … þessi stutti pistill átti ekki að vera svartnættið eitt heldur um nýju stikluna úr Tenet sem frumsýnd var fyrir helgi.

Eins og þeir vita sem séð hafa fyrstu stikluna var hún mikil gáta og sagði í raun ekkert um söguna. Maður áttaði sig jú á að þetta væri háspennumynd, krydduð vísindaskáldskap og einhvers konar tímaferðalagi þar sem aðalpersónan upplifir hluti sem eiga eftir að gerast.

Þessi nýja stikla segir svo sem ekki mikið meira um þann þátt sögunnar en leggur frekar áherslu á að sýna fleiri persónur og önnur spennuatriði.

En sjón er sögu ríkari og fyrir neðan
er stikla númer eitt til samanburðar.