Selur hlut af sálu sinni
Listakonan Grimes, sem hefur verið í fréttum að undanförnu fyrir að nefna barn sitt og Elons Musk X Æ A-12, vill að hæstbjóðandi ákveði verðgildi sálar sinnar.


Kanadíska listakonan Claire Elise Boucher, sem er betur þekkt undir höfundarheitinu Grimes, opnaði í gær list- og sölusýninguna „Selling Out“ á netinu. Þar mun hún sýna ýmis verk eftir sig frá síðastliðnum tíu árum, þ. á m. ljósmyndir, prentverk, teikningar og uppstillingar, sem verða einnig til sölu. Eru flest verkin verðlögð á bilinu 500 dollarar fyrir það ódýrasta og upp í 15 þúsund dollara fyrir það dýrasta.
Það verk sem mun samt vafalaust vekja hvað mesta athygli á sýningunni er list-lögfræðiskjal sem Grimes skapaði í samstafi við lögfræðinginn sinn (nafn hans hefur ekki komið fram í fréttum). Það er óvenjulegt að því leyti að um leið og kaupandinn mun geta prýtt einhvern vegginn með því eignast sá sinn sami hlut af sálu Grimes á löglegan hátt.

Grimes segir að í fyrstu hafi hún ætlað að selja þennan hlut af sálu sinni fyrir 10 milljónir dollara, en svo hafi hún áttað sig á að það væri ekki hennar að verðlegga eigin sál heldur annarra. Verður sálarhluturinn því seldur hæstbjóðanda í lok sýningarinnar, en hún var opnuð í gær og stendur yfir til 31. ágúst á listaverkasíðunni Maccarone.
Bíða nú margir eftir að sjá hversu hátt sál Grimes verður metin og hvernig þetta list-lögfræðiverk lítur út í heild sinni. Þegar þetta er skrifað hefur bara hluti þess birst á síðunni.