Góðgerðarsamtökin Safe Ground voru stofnuð til þess að styðja fanga við að þróa og endurbyggja persónuleg tengsl sín við maka, foreldra og börn. Sterkt samband við fjölskyldu og vini er lykilþáttur í því að fólk nái endurhæfingu eftir að losna úr fangelsi, en því miður eru þessir þættir ekki ávallt til staðar.

Jon, sem sjá má á myndinni fyrir ofan ásamt fyrrverandi kærustu sinni Charlotte, er einn þeirra sem hafa útskrifast úr námskeiðinu Fathers Inside („Feður inni“), sem er rekið af samtökunum. Á námskeiðinu er notast við leiklist og álíka skapandi iðju til að aðstoða þátttakendur við að skilja hlutverk sitt sem foreldri. Samkvæmt rannsóknum eru þátttakendur námskeiðsins 40% minna líklegir til að brjóta af sér aftur heldur en aðrir.

Jon er þriggja barna faðir með einn son og tvær dætur. „Hreinskilnin við Pearl [dótturina] hefur margborgað sig, ekki bara þegar kemur að okkar samskiptum heldur líka samskiptum hennar við móður sína og bræður,“ segir hann.

Myndin sem sjá má hér fyrir ofan er tekin átta vikum áður en Jon var hleypt úr fangelsi. Hún er hluti af ljósmyndaverkefni sem fjallar um föðurhlutverkið og karlmennskuna, og var slegið upp í tilefni 25 ára afmælis Safe Ground-samtakanna.

Í verkefninu opnaði Jon sig einnig um samband sitt við móður sína á uppvaxtarárum, sem og viðhorfin gagnvart karlmennsku sem hann ólst upp með, og að hans sögn er það að tala hreinskilnislega um þessi mál eitthvað það erfiðasta sem hann hefur nokkurn tímann gert.

Engu að síður er hann staðráðinn í að láta ekki dóminn skilgreina sig. „Ég setti gjörðir mínar, hugsanir og líf undir smásjá og áttaði mig á því hvað ég þarf að breyta miklu til að hafa jákvæð áhrif á líf mitt og þau sem því tengjast,“ sagði hann og bætti því við að prógrammið hefði sett hann í tengsl við tilfinningar sem hann hefði ekki upplifað um árabil.

Um fyrrverandi konu sína, Charlotte, hafði hann þetta að segja: „Hún bjargaði lífi mínu fyrir 25 árum. Ef væri ekki fyrir hana þá væri ég ekki hér í dag.“