Siglt inn í hala Halley-halastjörnunnar
Tvisvar á ári, í kringum 4. maí og svo aftur í kringum 22. október, siglir Jörðin í gegnum ísagnarafgangana frá Halley-halastjörnunni sem skapar hina stórglæsilegu Eta Aquariid-lofsteinadrífu.



Því miður verður að segja það strax að líkur á að sjá Eta Aquariid-lofsteinadrífuna frá Íslandi eru mjög litlar enda er miðpunktur hennar mjög lágt á lofti frá Íslandi séð eða í aðeins rúmum 5 gráðum yfir sjóndeildarhring í austri. En eftir því sem sunnar dregur á hnettinum aukast líkurnar og eru mestar á suðurhvelinu. Einhverjar bestu ljósmyndir sem náðst hafa af þessari drífu eru t.d. teknar í Pilbara-auðninni í norð-vestur Ástralíu og geta áhugasamir flett þeim upp á netinu.
Besti tíminn til að sjá drífuna er á milli 2 og 3 aðfaranótt 5. maí og er miðpunktur hennar, eða geislapunktur, í nánd við stjörnuna Eta í vatnsberamerkinu og þaðan kemur heiti hennar. Því miður skemmir það fyrir áhugasömum í ár að fullt tungl nálgast sem eykur birtuna og rýrir bestu skilyrði til að upplifa dýrðina. Á móti kemur að vegna ferðatakmarkana og útgöngubanna er mengun í lofti víða með minnsta móti.
Gerist aftur í október
En þótt Íslendingar á Íslandi muni tæplega sjá eina einustu rák drífunnar að þessu sinni er ekki öll von úti um að sjá hana frá landinu síðar meir því Jörðin fer aftur í gegnum slóð Halley 22. október og þá verða skilyrðin hér á landi betri, þ.e. ef það verður ekki skýjað í austri. Hefur beiðni um það verið send Veðurstofunni sem lofar að sjá til þess.
Hér fyrir neðan er stutt fræðslumyndband um Eta Aquariid-drífuna frá You Tube-rásinni The Secrets of the Universe og við viljum einnig benda áhugafólki um lofsteinadrífur og öðrum stjörnugægjurum á að skoða gagnvirka- og rauntíma-loftsteinakortið á vefsíðunni Time and Date.
Forsíðuljósmynd: Fernando Rodrigues / Unsplash