Hinn 32ja ára gamli Mohammad Ikram frá Pakistan er fæddur með enga handleggi, en hann hefur síður en svo látið það aftra sér frá því að framfylgja draum sínum um að verða snókerspilari.

Ikram býr í smábæ á Punjab-svæðinu í Pakistan. Hann minnist þess að hafa fylgst með öðrum börnum spila pool á uppvaxtarárunum og óskað þess innilega að hann gæti einn daginn spilað með. „Á þeim tíma óskaði ég þess að ég væri með handleggi svo ég gæti spilað leikinn líka,“ sagði hann við Associated Press.

Með tíð og tíma þróaði Ikram með sér sinn eigin stíl, og einn daginn fór hann á billjardsal í nágrenni við heimili sitt í leit að keppni. „Fólkið í salnum trúði ekki að ég gæti spilað með hökunni,“ sagði Ikram, „en þau fóru smátt og smátt að dást að því hvernig ég gat hitt hvítu kúluna með hökunni.“

Mohammad Nadeem, eigandi klúbbsins Cue Club í Samundri í Punjab, minnist þess þegar Ikram kom fyrst til hans fyrir áratug síðan og bað um að fá að spila snóker. „Ég sagði við hann ‘nei, þú getur ekki gert þetta.'“ sagði Nadeem. Ikram sætti sig hins vegar ekki við það svar. „Þegar hann hitti kúluna fyrst með hökunni á sér var ég forviða, vegna þess að skotið var alveg jafn gott eins og nokkur annar leikmaður hefði getað náð með kjuða,“ sagði Nadeem.

Ikram fór því að venja komur sínar í klúbbinn daglega og lagði á sig 12 kílómetra ferðalag hvert sinn. Hann hefur nú unnið ein þrjú mót og vinsældir hans fara sívaxandi, ekki bara í heimabæ hans heldur um Pakistan þvert og breitt.

Ikram vill sýna hæfileika sína víðar en Pakistan og vonast eftir stuðningi frá ríkisstjórninni, þar á meðal Imran Khan forsætisráðherra landsins, sem var fyrirliði pakistanska landsliðsins í krikket og vann með þeim heimsmeistaratitil árið 1992.

Ikram á tvo yngri bræður og fimm yngri systur, en hann á sérstakan sess í huga móður sinnar, Razia Bibi. „Ég horfi ekki á hann spila, en faðir hans hefur séð hann spila og við samgleðjumst honum,“ segir hún. „Við sögðum alltaf að hefði hann fæðst með handleggi þá væri hann mjög hamingjusamur. En núna verður allur heimurinn hamingjusamur við að sjá hann spila.“

Sjáið Ikram spila hér fyrir neðan: