„Kópavogsbær kaupir reglulega auglýsingar í Voga, tímariti Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég komst að þessu fyrir tilviljun og spurðist fyrir um hvaða reglur giltu um styrki til stjórnmálaflokka af þessum toga. Ég fékk þau svör að viðmið um auglýsingar til stjórnmálaflokka hafi verið ákveðnar á fundi kjörinna fulltrúa árið 2011 og miðað hafi verið við 150.000 kr. á ári. Þessi samþykkt er þó hvergi skráð í opinberum gögnum og þeir flokkar sem hafa komið nýir inn í bæjarstjórn eftir að þetta var samþykkt hafa ekki verið upplýstir um styrkina.“

Á þessum orðum hefst pistill Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur, bæjarfulltrúa Pírata í Kópavogi, á Facebook. Í pistlinum gagnrýnir hún ofangreindar greiðslur.

„Í kjölfarið spurðist ég fyrir um upphæðir þessara styrkja síðustu tvö kjörtímabil. Nú er komið í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hlotið langhæsta auglýsingastyrkinn á tímabilinu. Ekki nóg með það, heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn líka hlotið umtalsverðar upphæðir greiddar umfram téð viðmið, en fyrir alþingiskosningarnar 2016 og 2017 keypti Kópavogsbær viðbótarauglýsingar í Voga, tímarit Sjálfstæðismanna. Enga stoð er að finna fyrir því í samþykktum, engar þessara greiðslna hafa komið fyrir bæjarráð og þær finnast hvergi í opnu bókhaldi bæjarins,“ skrifar Sigurbjörg og heldur áfram.

„Þetta fyrirkomulag er til þess fallið að fela styrkveitingar til stjórnmálaflokka og gefa ákveðnum flokkum forskot að hærri styrkjum en öðrum. Fyrirkomulagið er ógagnsætt, hvergi birt og ekki kynnt öllum flokkum. Nú er það auk þess orðið ljóst að flokkurinn sem er við stjórn hefur notið þess mest og fengið hæstu styrkina. Réttast væri að leggja þessa auglýsingastyrki til stjórnmálaflokka af hið snarasta, samhliða því að rannsaka þær greiðslur sem Sjálftsæðisflokkurinn í Kópavogi hefur fengið úr bæjarsjóði undanfarin ár.“

Pistil Sigurbjargar má lesa hér fyrir neðan: