Salka Elín Sæþórsdóttir er 12 ára fótboltastelpa í Þrótti sem finnst fátt skemmtilegra en að baka kökur og kræsingar. Þeir sem eru svo heppnir að fá að smakka hjá henni nýbakað gúmmelaði biðja hana yfirleitt um uppskriftina og þess vegna ákvað hún að byrja á Instagram undir nafninu _bakarisvakari. Þar setur hún inn myndir og uppskriftir af því sem hún er að galdra í ofninum hverju sinni og allir sætabrauðsmolar ættu að kíkja á það.

Hvenær byrjaðir þú að baka?

„Fyrir svona ári og núna baka ég eiginlega alla daga vikunnar, ég elska að baka.“

Hvar færðu innblástur?

„Kökubókum, Instagram og matreiðsluþáttum aðallega. Elenora Rós sem er með Instagramið bakaranora er samt í mestu uppáhaldi og frá henni fæ ég oft hugmyndir.“

Salka hjá afmæliskökunni frægu.

Hvað er skemmtilegast að baka?

„Bollakökur og marengs og svo er geggjað gaman að búa til súrdeigsbrauð með pabba. Hann geymir súrmóður í krukku í eldhúsglugganum og leggur mikla ást í súrdeigið. Við búum líka til súrdeigspizzur öll föstudagskvöld og erum með eldofn úti á svölum sem gefur alvöru pizzabragð. Það elska allir pizzakvöldin á mínu heimili.“

Áttu einhverja spaugilega bakstursminningu?

„Já, þegar ég var að gera afmæliskökuna mína í sumar, það var mjög heitur dagur og þegar kakan var klár með kreminu og öllu skrautinu setti ég hana inn í ísskáp af því hún var byrjuð að leka í hitanum. Svo þegar ég opnaði ísskápinn seinna um daginn var partur af kökunni hruninn! Ég reddaði því með smjörkremi og enginn fattaði neitt en þetta var smá sjokk að sjá kökuna í klessu korter fyrir afmælisveisluna.“

Er bakarasvunta á framtíðarplönum þínum?

„Mig langar mest til þess að verða fótboltaþjálfari og kannski opna ég líka kökuhús með öðruvísi kökum einn daginn. Ég mun pottþétt líka gera eitthhvað sem tengist bakstri og kökum.“

Hvað viltu segja við þá sem hræðast bakstur og eru hræddir við að klúðra kökunum?

„Það klúðra allir og maður verður bara að prófa sig áfram og reyna þar til kakan tekst sem gerist alltaf á endanum.“

Uppáhaldsjólakakan?

„Uppáhaldið mitt eru súkkulaðikringlur en uppskriftin kemur frá langömmu Guðrúnu, þær eru guðdómlega góðar og ég baka þær alltaf fyrir jólin í miklu magni því allir elska þessar súkkulaðikringlur sem minna okkur á langömmu.“

Uppáhaldsjólalag?

„Þegar Þú Blikkar með Herra Hnetusmjör og Björgvini Halldórssyni.“

Jógúrt Möffins

„Þetta eru alveg svakalega góðar möffins sem ég elska að baka og borða. Þær eru búnar að fylgja fjölskyldunni lengi og ég mæli með að allir prófi þær.“

Girnilegar kökur.

Hráefni:

350 g sykur
220 g smjör
4 egg
1 msk vanilludropar
450 g hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
1 dós karamellu- eða kaffijógúrt

Aðferð:

Hitið ofninn á 180°blástur. Hrærið saman sykur og smjör þar til að blandan er orðin létt og ljós. Bætið eggjunum einu í einu og hrærið vel saman á milli þar til að blandan er orðin kekkjalaus. Bætið þá þurrefnunum, jógúrtinu og vanilludropum saman við og blandið vel saman. Ef að ykkur finnst blandan vera of þykk getið þið bætt aðeins af mjólk út í deigið en það á að vera frekar þykkt. Setjið deigið svo í bollakökuform, það er gott að hálffylla formin því þær lyfta sér. Setjið inn í ofn og bakið í u.þ.b. 20 til 25 mín. Kælið kökurnar vel áður en kremið er sett á þær.

Salka setur ást í það sem hún bakar.

Kanilkrem

Hráefni:

200 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
2 tsk kanill

Aðferð:

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til að blandan er byrjuð að verða hvít á litinn. Bætið þá kanil út í og hrærið vel saman. Þegar kremið er orðið silkimjúkt setjið það þá í sprautupoka og svo á kökurnar. Ég muldi bismark brjóstsykurmola til að skreyta kökurnar með.

Verði þér af góðu.