Antonio Radić
Antonio Radić.

Króatíski skákáhugamaðurinn Antonio Radić (f. 1987) hefur á undanförnum árum haldið úti stórskemmtilegri You Tube-rás undir höfundarheitinu Agadmator þar sem hann fjallar daglega um skák frá ýmsum hliðum, fylgist með og miðlar nýjustu fréttum úr skákheiminum, fer yfir bæði nýjar og gamlar skákir og útskýrir þær á sinn hátt auk þess sem hann tekur fyrir magnaða leiki í keppnisskákum og setur upp þrautir og skákdæmi. Rásin er nú með rúmlega 615 þúsund áskrifendur og varð að aðalstarfi Antonios árið 2017, en hann starfaði áður sem grafískur hönnuður.

Hér er dæmi um skákþraut sem Antonio birti nýlega en hún er eftir Belgann Gijs van Breukelen og er talin hafa verið samin um 1970 þótt hún hafi ekki birst á prenti fyrr en löngu síðar. Fylgir sú saga með að bæði skáktölvur og fjöldi þekktra stórmeistara hafi glímt við hana án þess að finna réttu lausnina … fyrr en sjálfur Mikhail Tal leysti hana loksins á skákmóti árið 1987. Þá sögu segir Antonio okkur í meðfylgjandi myndbandi.

En áður en lesendur kynna sér þessa sögu og kíkja um leið á lausnina geta þeir spreytt sig á þrautinni.

Hvítur á leik og vinnur

Eins og sést virðist svartur við fyrstu sýn vera með yfirburðatafl enda manni og tveimur peðum yfir og þar af vantar tvö þeirra bara tvo leiki til að komast upp í borð og verða að drottningu. Eini möguleiki hvíts virðist felast í d7-peðinu sem vantar bara einn leik í drottningu. Vandamálið er að ef hvítur leikur d8-D í fyrsta leik þá á svartur gaffalskák á f7 og hirðir hana í næsta leik. Þess utan vofir yfir hvítum að svartur leiki biskup sínum til a5 og komi þar endanlega í veg fyrir að peðið verði nokkurn tíma að nýjum manni. En hvítur á þrátt fyrir þetta þvingaða og mjög fallega vinningsleið. Reynið að koma auga á hana áður en þið skoðið myndband Antonios hér fyrir neðan.