Að eilífu ég lofa💘

Fimmta bókin mín er farin í PRENTUN!!!🤩

Þetta er náttúrulega einhvers konar bilun að skrifa nýja bók ár eftir ár en þessi fallega saga kom til mín og spýttist fram í fingurnar sem negldu lyklaborðið á ógnarhraða.

Skilnaður er skrýtinn með ógrynni af spurningum en fá svör. Ég skrifaði þessa sögu fyrir sjálfa mig og börnin mín þrjú þegar við stóðum á þessum krossgötum. Ég vona að lesendum þyki vænt um sögupersónurnar og geti speglað sig í þeim því ég átta mig vel á því hversu undarlegt það kann að hljóma að skrifa barnasögu um skilnað!
😅
En eiga ekki allar sögur rétt á sér?
Líka þær sem eru pínu sorglegar og kannski smá erfiðar stundum en líka alveg fyndnar!
🙃

📕💔🌤
Små úr bókinni:
„Steinunn hélt niðri í sér andanum. Hún vissi hvað þetta þýddi en hana grunaði aldrei að þetta myndi koma fyrir hana. Þetta gerðist bara hjá öðrum fjölskyldum, ekki hennar. Þau voru fullkomin fjölskylda. Eða var það ekki? Steinunn fann að andardrátturinn varð hraðari og hugsanirnar þutu á ógnarhraða með ótal spurningum en engum svörum. Hvernig yrði framtíðin? Hvar yrði hún? Þyrfti hún að eiga tvö heimili? Tvo fataskápa? Tvennt af öllu dóti? Hvernig matur yrði heima hjá pabba? Kunni pabbi að elda? Hver myndi hjálpa mömmu að muna að taka vítamín, senda krakkana á réttum tíma á réttar íþróttaæfingar, vakna á morgnana, laga bílinn og jólaskreyta? Hver fengi Kött?“
🐾💔🥀

🍾💋
„Sá sem flöskustútur lendir á … á að kyssa Flóka.“ Flóki leit flóttalega í kringum sig. Allir komu til greina.
„Það er alveg sama hvort það er stelpa eða strákur og það verður að kyssa Flóka beint á munninn. En sko, lokaðan munninn. Flóki, þú mátt ekki opna hann. Það er bannað.“
„Ég ætla ekkert að opna munninn. Mér finnst þetta alveg nógu stressandi.“
Flóki þerraði þvala lófana á lærunum á sér og hélt niðri í sér andanum á meðan Dagný snéri rauðvínsflöskunni sem hún hafði fundið í endurvinnslunni ofsahratt. Flaskan fór í marga hringi. Steinunn vonaði að flöskustúturinn lenti á sér en samt vonaði hún að hann gerði það ekki.
Hvað ætti hún að gera ef hann myndi lenda á henni? Kyssa Flóka? Gæti hún það?