Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í innsendri umfjöllun.

Í fyrstu viku mars sl. var veirufaraldurinn farinn að setja mark sitt á skólastarfið í Salaskóla. Sprittbrúsar voru áberandi um allt hús og nemendur og starfsmenn þvoðu hendur sínar vandlega oft á dag meðan þeir sungu afmælissönginn tvisvar. Á sama tíma var á öðrum stað reynt til þrautar að lenda kjarasamningum tveggja starfsmannahópa skólans við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga; stuðningsfulltrúa, frístundaleiðbeinenda og fleiri annars vegar og skólaliða sem sjá um ræstingar hins vegar, en báðir hópar höfðu boðað verkfall mánudaginn 9. mars. Á síðustu stundu náðust samningar fyrir fyrrnefnda hópinn en ekki hinn og þeir sem sjá um þrif í skólanum fóru því í verkfall. Samingar beggja hópa höfðu verið lausir í langan tíma en einhvern veginn ræða samninganefndir aldrei saman fyrr en allt stefnir í óefni.

Skólaliðar gegna mjög mikilvægu hlutverki í Salaskóla eins og öðrum skólum. Dagleg þrif eru nauðsynleg af heilsufarsástæðum og þegar hættulegur veirufaraldur er í gangi eru þrifin mikilvæg sem aldrei fyrr. Mörgum sinnum á dag þarf að sótthreinsa alla snertifleti, þrífa salerni og skúra gólf betur en nokkru sinni áður. Þegar skólaliðar höfðu verið tvo daga í verkfalli var ekki lengur hægt að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna og skólanum var því skellt í lás 11. mars.

 

 

Kennarar hófu strax að skipuleggja fjarkennslu nemenda sinna í verkfallinu og þegar samkomubannið var sett á 16. mars var allt komið á fullt. Reyndar voru um 40% kennara skólans komnir í sóttkví þegar hér var komið, en þeir létu það ekki á sig fá og sinntu fjarkennslunni af miklum krafti þrátt fyrir það. Nemendur voru duglegir að stunda námið heima en aðstæður á heimilum þeirra voru eðlilega misjafnar. Foreldrar voru margir hverjir að sinna vinnu sinni heima, þeir þurftu að taka þátt í fjarfundum og fá vinnufrið. Um leið kröfðust börnin athygli eða þurftu aðstoð við námið. Svo náttúrulega heimilisstörfin, áhyggjurnar af ástandinu, ótti við atvinnumissi, tekjuskerðingu og að standa sig ekki í að sinna námi barnanna. Fjarkennsla er alveg prýðileg aðferð við eðlilegar aðstæður en hún hentar ekki öllum í því árferði sem nú er og getur ekki komið í stað þess að mæta í skólann sinn nema að takmörkuðu leyti.

Þann 25. mars var verkfalli frestað, starfsfólkið mætti til vinnu og skólinn var opnaður nemendum daginn eftir. En vegna takmarkana samkomubannsins var ekki hægt að taka á móti öllum nemendum í einu og í Salaskóla var farin sú leið að hver nemandi mætti annan hvern dag í skólann og eftir páska var bætt í og nemendur í 1. og 2. bekk mættu daglega í skólann.

4.maí mættu allir nemendur í skólann í venjulegt skólastarf. Gleði og eftirvænting skein úr augum bæði nemenda og starfsmanna. Allir ákveðnir í að taka síðasta mánuð skólaársins með trompi eftir erfiðar vikur. Við vissum að sjálfsögðu að Efling hafði boðað verkfall frá hádegi 5. maí ef samningar næðust ekki fyrir þann tíma. Við vorum engu að síður vongóð þar sem samningarfundur hafði verið boðaður seinnipart dags 4. maí og trúðum því að fulltrúar beggja aðila kæmu vel undirbúnir og sætu saman þar til samningar næðust. En þvílík vonbrigði! Fundurinn stóð í klukkustund og enginn árangur. Verkfall óhjákvæmilegt með þeim afleiðingum að fjórir stórir grunnskólar í Kópavogi skella í lás og þrír leikskólar. Í annað sinn á stuttum tíma.

Það verður að leysa þessa deilu strax. Efling hefur óskað eftir samskonar samningi við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagið gerði við Reykjavíkurborg, ríkið og Faxaflóahafnir. Félagsmenn er fólkið sem minnst ber úr býtum og stendur frammi fyrir því hver mánaðamót að launin hrökkva ekki fyrir nauðsynjum og fara jafnvel öll í húsaleigu. Eðlilega spyr þetta fólk sig af hverju þau sveitarfélög sem nú eiga hlut að máli geta ekki gert svipaðan samning við sitt fólk og þegar er búið að gera annars staðar. Sveitarstjórnarmenn og bæjarstjórar hafa haft þá reglu að vísa á samninganefnd Sambandsins og treyst henni til að ganga frá samingum við stéttarfélögin. Það hafa þeir gert í þessari kjaradeilu að einum undanskildum, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga en hann situr ekki í samninganefndinni. Hann hefur verið stóryrtur um kröfur Eflingar í fjölmiðlum hvað eftir annað. Það liðkar ekki fyrir samningum. Formaðurinn þarf að treysta því fólki sem skipar samninganefndina og leyfa því að klára þetta mál. Það er gert á fundum, þar sem fulltrúar beggja deiluaðila sitja, ræða saman og finna góða lausn.