Það kannast eflaust margir við það vandamál að glös verða skýjuð og mött með tímanum. Það þýðir ekki að þau séu ónýt eða ónothæf og það er ekkert sérstaklega mikið mál að gera þau sem ný.

En af hverju verða glösin skýjuð? Á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna er það útskýrt:

„Við endurtekin þvott í uppvottavélinni myndast litlar rispur á glerinu og í rispurnar safnast kalk og önnur efni sem síðan fara að mynda ský á glösunum,“ stendur á síðunni. Þá er einnig stungið upp á einfaldri leið til að losna við þessi leiðindaský.

„Ef rispurnar eru ekki orðnar of miklar er hægt að nota borðedikið góða til að fá þau til að glansa á ný. Glösin eru einfaldlega látin liggja í borðediki, blandað til helminga við vatn yfir nótt. Það ætti að ná í burtu því sem hefur safnast saman í rispurnar. Glösin eru svo þvegin í köldu vatni,“ stendur á síðunni og bætt við að ekki megi nota edik á glös með möttum skreytingum þar sem edikið er ætandi.

Þá eru lesendur einnig hvattir til að þvo spariglös í höndunum með volgu sápuvatni í staðinn fyrir að setja þau í uppþvottavél. Ef þau eru hins vegar ávallt sett í uppþvottavél er gott að hafa á bak við eyrað að hafa vélina fulla af gljáa, velja þvottakerfi með lágu hitastigi og fjarlægja glösin áður en vélin byrjar að þurrka.