Ofurfyrirsætan Bar Refaeli hefur samið við ísraelsk stjórnvöld vegna ákæru um skattsvik á hendur henni. Rannsókn á málinu hófst árið 2015 í Ísrael.

Samkvæmt frétt Associated Press felst samningurinn í því að ofurfyrirsætan þurfi að vinna samfélagsþjónustu í níu mánuði. Móðir hennar, umboðsmaðurinn Zipi Refaeli, þarf hins vegar að dúsa á bak við lás og slá í sextán mánuði. Báðar áttu þær að greiða 1,5 milljónir dollara hvor í sekt ofan á þær mörgu milljónir í skatt sem mæðgurnar skulda ísraelskum yfirvöldum.

View this post on Instagram

@carolinalemkeberlin.il

A post shared by Bar Refaeli (@barrefaeli) on

Málið snýst um það að ofurfyrirsætan hafi gefið upp rangar skattaupplýsingar um nokkurra ára skeið þegar hún var á hátindi ferilsins um miðjan síðasta áratug. Fyrirsætan hélt því fram að hún hefði ekki eytt miklum tíma í heimalandinu Ísrael á þessum tíma og þyrfti því ekki að borga jafnháan skatt og þeir sem ættu þar búsetu. Þessu var ákæruvaldið ekki sammála.

Móðir fyrirsætunnar var í sama mál sökuð um að gefa ekki upp tekjur sínar sem umboðsmaður dóttur sinnar sem og að villa um fyrir yfirvöldum varðandi búsetu dóttur sinnar í Ísrael. Allt var þetta gert til að skjóta undan skatti.

Í yfirlýsingu frá lögfræðingi ofurfyrirsætunnar segir meðal annars:

„Á þessum tíma var Bar nýorðin tvítug, vann um heim allan sem fyrirsæta og skipti sér ekki af fjármálunum. Í dag tekur hún ábyrgð á mistökum sínum.“