Áttræður maður í Dordogne í Frakklandi lenti á dögunum í ansi óvenjulegu óhappi. Var hann að setjast niður til snæðings á heimili sínu einu sinni sem oftar þegar hann varð var við flugu suðandi í kringum sig.

Því greip hann rafmagnaðan flugnaspaða og hóf að slá til hennar, en var hann ómeðvitaður um það að einn af gasbrúsunum á heimili hans væri farinn að leka. Rafneisti frá spaðanum í bland við það olli svo gríðarstórri sprengingu sem gereyðilagði eldhúsið og fjarlægði hluta af þaki hússins.

Maðurinn varð aðeins fyrir brunasári á hendi og slapp því blessunarlega frá atvikinu. Hann býr nú á tjaldstæði í nágrenninu meðan fjölskylda hans vinnur að viðgerðum á húsinu.

Ekki er vitað um afdrif flugunnar.