Húð konu á að vera mjúk, sveigjanleg, hárlaus og slétt, hún á ekki að sýna nein merki um slit, aldur, visku og reynslu. Kröfur um hvernig útlit kvenna á að vera er oft á tíðum óraunhæfar, hættulegar, draga niður sjálfsímynd kvenna og jafnvel mjög kostnaðarsamar. Allt frá barnæsku er konum kennt hvernig þær eiga að hegða sér og líta út eftir ákveðinni staðalímynd sem sett er á konur. Líkami og sjálfsmynd einstaklings haldast í hendur og þegar konur geta ekki staðist undir kröfum samfélagsins um hvernig þær eiga að vera eiga þær það til að refsa sér eða skammast sín fyrir að vera „öðruvísi“.

Líkaminn er stórfenglegt fyrirbæri sem oft er hægt að þjálfa, móta og stjórna. Kröfur um útlit hans breytist með árunum, viðhorfum og breytingu á samfélaginu. Með tímanum er eins og líkaminn hætti að vera sjálfstætt kerfi og verður hluti að sjálfinu. Útlit og tjáning líkamans getur gefið frá sér ýmsar upplýsingar eins og til dæmis um stétt og stöðu fólks í samfélaginu og við klæðum okkur í samræmi við það hlutverk sem við völdum okkur eða stundum var valið fyrir okkur.

Það er stöðugt verið að búa til óraunhæfar væntingar á konur um hvernig þær eiga að líta út. Þó að útlit konunnar breytist með árunum þá er alltaf þessi ákveðna krafa um kvenleika. Fjölmiðlar og nú samfélagsmiðlar hafa mikil áhrif á ímynd konunnar, það er hvernig hún skal líta út hverju sinni. Tæknin gerir það að verkum að hægt er að breyta og lagfæra myndir hvar sem er áður en þær eru settar á netið. Það er eins og kona megi ekki eldast því húðin á að vera slétt, engar sjáanlegar hrukkur sem geta gefið í skyn að þessi kona er með reynslu og visku, engin slit eða appelsínuhúð mega sjást, allur líkaminn á að vera hárlaus og sléttur því það er að vera kvenleg.

Hún má ekki vera feit en heldur ekki of grönn, og alls ekki of vöðvastælt. Að vera kvenleg er einnig að sitja með fætur saman, alls ekki glenntar, því þá gætirðu verið að senda röng skilaboð, axlir aftur og brjóstkassinn fram og hakan upp, en ekki þannig að þú lítir út fyrir að vera „góð með þig“. Konan þarf að vera hógvær í líkamstjáningu.

Það eru til óendanlega mikið af vörum sem eiga að aðstoða konur við að viðhalda eða fá yngra útlit. Ef farið er inn í snyrtivöruverslanir er hægt að sjá margar hillur af vörum bara fyrir konur á meðan herralínan tekur kannski eina hillu, sem sýnir einnig að það er meiri krafa gerð á konur að nota fleiri vörur. Til eru snyrtivörur sér fyrir hvern part á líkamann og ekki er nóg að eiga þær og bera þær á sig heldur oft er til ákveðin tækni hvernig bera skal tiltekna vöru á sig til að hún virki sem best og oftar en ekki þarftu allavega aðra vöru, ef ekki tvær eða fleiri til að varan virki sem best. Konur eru þó ennþá að berjast fyrir jafnrétti í launum og eru lægri launaðri en karlmenn en eiga samt að eyða meiri pening í útlit sitt.

Við erum komnar langt í kvennréttindabaráttunni, við megum kjósa og konur eru auknum mæli farnar í karllægari störf. Baráttan um staðalímynd á þó enn langt í land, en við erum búnar að taka fyrstu skrefin með jákvæðari líkamsímynd þar sem konur þurfa ekki að vera ákveðið form heldur felst fegurðin í að vera þær sjálfar. En fegurð felst í raun ekki í formi líkamans heldur í líkamlegri og andlegri heilsu.