Á félagsfundi Meistarafélags bólstrara sem fór fram í gær hjá Samtökum iðnaðarins í Húsi atvinnulífsins var staða menntamála í greininni rædd en nú virðist stefna í metaðsókn í nám í bólstrun.

Enginn nemandi hefur útskrifast úr Tækniskólanum í bólstrun undanfarin ár en nú stefnir í að fagmenntuðum bólstrurum fjölgi. Þetta er að þakka jákvæðum breytingum sem gerðar hafa verið á náminu auk þess sem Tækniskólanum hefur tekist að gera samkomulag við skóla í Skive í Danmörku sem sérhæfir sig í kennslu í bólstrun.

Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að félagið hefji undirbúning að því að taka á móti þeim nemum sem vonandi munu sækja í vinnustaðanám að skólanáminu loknu. Farið var yfir nýjar tillögur menntamálaráðherra að breytingum á reglugerð um vinnustaðanám sem nú er til vinnslu. Afstaða fundargesta var sú að þær breytingar sem þar eru lagðar fram séu jákvæðar þegar kemur að minni iðngreinum þar sem líklegt sé að félagsmenn komi til með að hjálpast að við kennsluna. Á fundinum kom fram skýr áhugi á því að félagsmenn Meistarafélags bólstrara stuðli að fjölgun í greininni og aðstoði Tækniskólann við að útskrifa áhugasama nemendur.