Vísindamenn tilkynntu á mánudaginn að snefilmagn af sjaldgæfu mólekúli sem heitir fosfín hafi fundist í andrúmslofti Venusar, og þykir það benda til möguleikans á því að líf gæti þrifist þar. Fosfín sem fyrirfinnst á jörðinni er yfirleitt afleiðing mannlegra iðnaðarafla eða tengt starfsemi örvera sem þrífast í súrefnisleysi.

Þó að þetta þýði ekki beinlínis að líf hafi fundist á plánetunni sjálfri, þá bendir þetta þó til þess að mögulega sé örveruvirkni í efri lögum andrúmslofts Venusar, langt frá yfirborðinu.

Stjörnufræðingarnir tóku fram að þetta væri síður en svo sönnun fyrir neinu, þó niðurstöðurnar kitli óneitanlega. „Ef við ætlum að fleygja því fram að það gæti verið líf þarna,“ sagði William Balms, rannsóknarmaður hjá MIT, „þá verðum við að útiloka alla aðra möguleika… við erum ekki endilega að segja að það sé líf þarna, en það er eitthvað alls óþekkt þarna sem gæti mögulega verið líf.“

Á Venus myndast óðagróðurhúsaáhrif þegar þykk ský í koltvísýringsríku andrúmsloftinu fanga sólarljós og skapa þannig gríðarlegan hita á yfirborði plánetunnar, alveg upp í 480 gráður á celsius. Ofar í gufuhvolfinu er hitastigið hins vegar mun mildara, og þrátt fyrir hátt sýrustig skýjanna hafa vísindamenn getið sér til um að örverur gætu leynst þar.

Þó hægt sé að útiloka margar ólíffræðilegar útskýringar á myndun fosfínsins þýðir það ekki að líf sé eina mögulega útskýringin. Andrúmsloft Venusar samanstendur að langmestum hluta til úr brennisteinssýru, sem vekur upp margar spurningar hjá vísindamönnum um það hvernig nokkur lífvera gæti lifað af þar.

„Á jörðinni geta sumar örverur lifað af um það bil 5% sýrustig í umhverfi sínu,“ sagði rannsóknarkonan Cara Sousa Silva hjá MIT, „en skýin á Venus eru gerð nánast alfarið úr sýru.“

Næstu skref í rannsóknunum munu vera að leita merkja um aðrar gastegundir sem gætu bent til lífs, sem og að komast að því hvert hitastig skýjanna er þegar fosfínið mælist þar. Talið er á þessum tímapunkti að eina leiðin til að svara spurningunni endanlega muni vera sú að heimsækja Venus í geimskipi, eitthvað sem ekki er talið raunhæft fyrr en árið 2026 í fyrsta lagi.

Sjá má umfjöllun um uppgötvunina á Stjörnufræðivefnum.