Þessi sértilgerða spá fyrir Fréttanetið er svokölluð Jyotish spá eða Vedísk stjörnuspeki og er unnin af Fjólu Björk Jensdóttur.

Fjóla Björk er bæði vedískur stjörnuspekingur, ayurvedískur lífsstílsráðgjafi og listakona. Vedíska stjörnuspekin eru hluti af hinum fallegu og rómantísku indversku fræðum sem eiga rætur sínar í hin fornu heimspekirit Indverja – kölluð vedaritin.

Fjóla nam þessi fræði innan kornakra Iowa fylkis í Bandaríkjunum frá árunum 2000 til ársins 2006 þar sem hún tók B.A. gráðu til Ayurvedískra lækninga og M.A. gráðu til „fine arts“. Vedíska spáin byggir á nákvæmum reikningum Fjólu en mikilvægt er að þekkja sitt vedíska rísanda merki, og/eða tunglmerki svo hægt sé að lesa rétt í spána.

Hægt er að senda póst á fjola@frettanetid.is ef þú hefur áhuga á að finna út rísandann þinn, en Fjóla mun héðan í frá birta mánaðarlega stjörnuspá á Fréttanetinu.

HRÚTUR

VAXANDI INNKOMA – FÖGUR SKRIF OG TJÁNING – BREYTINGAR Í HÓPASTARFI

Þetta er ár nýrra tækifæra fyrir þig elsku hrútur. Þú hefur síðustu misserin verið að undirbúa og mennta þig til nýrra lífsstefnu og nú síðan í janúar farið af stað nýtt tækifæri, afar afar hægt auðvitað sökum aðstæðna en hertu upp hugann því vöxtur í frama, orðstír og atvinnumálum mun fara ört vaxandi næstu 2 árin í lífi þínu. Hafðu þó í huga að með viðveru Plútó gætu smávegis hræringar gert reglulega vart við sig en þær eru þó bara það og ekkert til að óttast. Gættu þess að halda óhræddur og ótrauður áfram þegar þú stendur frammi fyrir áskorunum.

Í byrjun júní tengist hrúturinn orku smástirnisins purvabhadrapada. Purvabhadrapada marka síðustu metra vatnsberans og táknar endalok. Þetta smástirni skapar ýmiskonar sársauka, slys og endalok og gæti júní mánuður reynst hrútnum flókin og erfiður. Táknmyndir þessa smástirnis eru ekkert annað en sverð og líkkista og táknar upphaf endaloka. Láttu þetta alls ekki hræða þig elsku hrútur, en líklegast útkoma þessa er að einhvers konar breytingar í tengslum við eldra systkin, vini, frænda eða félagshóp, sem er staðsetning þessa smástirnis í þínu korti. Möguleiki er að þú sért viðloðinn einhvern hóp sem sé nú að fara í gegnum breytingar og mögulega endalok, eða að uppstokkun sé í kringum vini og félaga.

Purvabhadrapada er samt sálrænt séð talið vera mjög þungur róður og ef þú upplifir þyngsli skaltu halda þér í, leita stuðnings og hugga þig við að áhrifunum lýkur strax sama mánuð, á 24. júní næstkomandi.

Margt dásamlegt leikur líka lausum hala í kringum hrútinn en með Venus sterkan í öðru húsi ásamt sól mun skapast aukning í tekjuflæði til byrjun ágúst.

NAUT

MUNAÐUR – GRÓÐRASÖM VIÐSKIPTI – GEISLANDI ÚTLIT

Fyrri hluta júní mánaðar liggur Sól á rísanda nautsins og skapar þannig metnað, sjálfsöryggi og sterka sjálfstjáningu, sérstaklega í tengslum við fegrun, hönnun og betrumbætur á heimilis- eða vinnuaðstöðu. Stjórnsýsla og/eða faðir mun reynast þér vel – til 16. júní. Sólin á þessum stað gerir það að verkum að við skínum björt eins og Sólin sjálf. Húðin glóir, heilsan styrkist og framsókn verður kröftugri.

Venus situr einnig sterk á rísanda nautsins með sólinni og skapar þar efnislega styrkingu í gegnum frama og atvinnumál. Venus í nauti getur vakið nautnasegginn til lífs og almennu óhófi í lífsins nautnum. Farðu því gætilega elsku naut. Reyndu að hafa hemil á leti, nautnum, ofáti o.s.frv. Fyrir utan Venus hinn fagra en plánetan Júpíter kölluð „Sá Góði“ því hann er sá sem ljáir okkur blessanir, stuðning, þenslu, handleiðslu og kærleikinn. Júpíter er nú afar illa staðsettur á milli Satúrnusar og Plútó og verður til lok júní. Fyrir utan það að skapa tálma á flæði blessana í raun öllum kortum þessa dagana, skapar þetta sér í lagi aðskilnað, mögulega skilnað, dauðsfall vinar eða ættingja eða einhvers konar sár endalok. Þvingaðar breytingar eða aðskilnaður er yfirvofandi og þú munt þurfa að leita þér stuðnings og aðstoðar vegna þessa. Þessi stuðningur verður þér erfiður og þú munt mögulega þurfa að leita til þeirra sem þú vilt síst þurfa að leita til.

Rahu dvelur á öðru húsi nautsins og skapar breytingar í fjölskyldu og tekjuflæði allt síðasta ár og fram til október. Tekjuflæði ætti að vera gott á þessum tíma en með Merkúr staðsettan á sama vettvangi í sumar er ljóst að ný viðskipta- og tekjuleið mun opnast (allavega tímabundið). Rahu er flokkuð sem „skítug“ pláneta og gæti orsakað flæði óheiðarlegra eða ólögmætra tekna.

TVÍBURI

VIÐURKENNING – STYRKING INNVIÐA – FRJÓSEMI Í SMÍÐUM EÐA SKRIFUM

Árið hefur verið strembið fyrir tvíburann og sérstaklega núna fyrr í vor. Núna 23. maí styrktist rísandinn í korti tvíburans til muna þegar Merkúr færði sig en þessi tiltekni styrkur léði honum meiri burði til að byggja upp innviðina í lífi sínu, heimilið, hjartað og tengslin við kjarnann. Fyrr í maí lokaðist aðeins á frið og sátt en hluti af því voru erfið samskipti, útgjöld eða aðskilnaður. Í kjölfar 23. maí munu heimilið og hjartað fá blómstra um góða tíð og tvíburinn mun fá mikla athygli í sumar (frá 23.05-1.08) fyrir sína mörgu hæfileika. Merkúr er ávallt sú pláneta sem stýrir framvindu tvíburans og þegar hann náði styrk á 23ja fer tvíburinn markvisst að byggja upp heimilið, finna sér farveg fyrir sína endalaus hugmyndafrjósemi. Sumir tvíburar beina sjónum sínum mest að skrifum og það verður líklega mikið um skrif og frjósöm skemmtileg samskipti þar til Merkúr færir sig á 1. ágúst næstkomandi. Rahu hefur verið í um eitt ár staðsett innan tvíburans og hefur þetta orsakað óstöðugleika í samböndum en æðri tilgangur þess er að færa athygli tvíburans inná við, á grundvöll persónulegra mála. Rahu skapar þér tækifæri og upphafningu fyrir þína sérstöðu í þessu lífi.

Venus dvelur við í tólfta húsi þetta sumarið frá lok mars til byrjun ágúst. Þetta mun orsaka mikla virkni í svefnherberginu. Segja má að svefnherbergið verði uppspretta gleði, frjósemi og munaðs hjá tvíburanum. Erfitt er að segja hvort sem hann fari nú að endurinnrétta hjá sér svefnherbergisálmuna eða hvort um kynlífsleika sé að ræða veltur á hverju korti fyrir sig. Svefninn mun bætast til muna undir þessum áhrifum.

KRABBI

RÍKULEGT FÉLAGSLÍF – MARKMIÐ Í BLÓMA – FÓRNIR FYRIR FÓLKIÐ SITT

Krabbinn er í eðli sér afar ástríkur og örlátur við fólkið í lífi sínu. Hann skilur vel að til að öðlast langvarandi hamingju verðum við að næra ekki bara okkur sjálf, heldur einnig fólkið í okkar nánasta umhverfi. Að vera móðir, að næra vini og vandamenn, að styðja og styrkja náungann er oft kjarninn í lífi krabbans, á einn eða annan hátt. Margir krabbar leiðast þannig í prests eða ráðgjafastörf sem ljá honum burði til að iðka þetta hjartnæma örlæti út á við. Þetta er árið í lífi krabbans sem snýst um stífar málamiðlanir við annað fólk. Líklegt er að sambönd verði þung, kröfuhörð, flókin og stíf á þessum tíma en lærdómurinn er að liðka ennfremur þennan eiginleika sem krabbinn á sterkastan. Þessi lærdómur gæti tekið á sig margar birtingarmyndir, maki gæti veikst, þarfnast umönnun og eigin þarfir þannig neyðst til að fara í bakgrunn, viðskiptafélagi gæti skyndilega farið að krefjast nýrra aðstæðna í samskiptum og þú neyðist til að standa vörð um þína hagsmuni og setja mörk. Að eiga við fólk og málamiðla verður þyngra áður en hér er karma að banka uppá.

Sumarið verður dásamlegur tími fyrir krabbann, frá lok mars til lok júlí – Venus tók sér stöðu í húsi vina, félagslífs og markmiða í lok mars og mun þar styrkja tengsli við yndislega vini í gegnum mat, partý og ýmsar uppákomur. Markmið í tengslum við listir, fegurð, konur, tísku eða munað gætu farið að kræla á sér og þú munt njóta mikils árangurs í því.

Merkúr er sterkur í tólfta húsi krabbans í allt sumar – Þetta hefur í för með sér miklar draumfarir þar sem Merkúr er þarna tengdur hinum yfirnáttúrulega Rahu og skapar tengingar við æðri svið og andlega orku. Mikil samskipti við æðri mátt krælir á sér bæði í hugleiðslu og í draumi. Þetta er sumarið þar sem krabbinn þyrfti að temja sér að hafa draumadagbók á náttborðinu. Kröftug og árangursrík viðskiptatengd samskipti eða skrif við erlenda aðila munu einnig láta kræla á sér undir þessum sömu áhrifum.

LJÓN

FRAMGANGA – FRÆGÐ – ÁSTRÍÐUFULLAR TENGINGAR

Þann 4. maí síðastliðinn færði Mars sig frá steingeit yfir í vatnsberann. Mars er ávallt mikill hvati töfra og blessana fyrir ljónið og hefur hún nú kveðið að sér á vettvangi sambanda – bæði viðskiptalegra og persónulegra. Vegna heits eðlis Mars getum við fyllilega gert ráð fyrir því að þessar nýju, skemmtilegu og árangursríku sambönd munu einkennast af hita, ástríðu, hraðri framvindu, rifrildum, og mögulega einnig siðleysi, fljótfærni og hvatvísi.

Þann 28. mars rann Venus inní hús frama og atvinnu hjá ljóninu. Þegar Venus kemst inná vettvang nautsins skapast afar kröftug Venusorka í öllum kortum og sýnir hún sig á sviði atvinnu, orðstírs, föður og frama í korti ljónsins. Ljónið getur búist við auknum efnislegum stuðningi í gegnum þessa málaflokka og mun bara aukast stigvaxandi eftir því sem líður á sumarið, en sérlega áberandi rétt á meðan Sólin rennur til liðs við Venus frá 15. maí til 15. júní. Með Venus í húsi yfirvalds í þennan langa tíma fram til lok júlí, gæti einnig þýtt að það skapist ástartenging við yfirmann eða einhvern í yfirmannsstöðu í lífi þínu.

Elsku ljón – ég hvet þig til að nýta þennan tíma vel til að hefja viðskipti af hvers kyns toga. Stjörnur þínar falla vel til hvers kyns viðskipta og markvissa uppbyggingu í gegnum bandalag og gagnkvæman stuðning. Þetta er mánuðurinn þar sem orðstír og upphafning eru í forgrunni og nú er um að gera að leggja eggin sín á vogarskálarnar og keyra sig í gang af fullri alvöru. Treystu innsæinu og láttu eftir þér að leitast við styrkjum og stuðningi því tíminn er núna!

MEYJA

HÆKKANDI ORÐSTÍR – VIRÐING – STUÐNINGUR TIL AUKINNA TEKNA

Af merkjunum tólf nýtur meyjukortið langmesta styrksins í júní og í raun allt sumar. Rahu hefur legið nú í rúmt ár á vettvangi frama og atvinnumála en Rahu er talinn ná miklum styrk í þessu húsi en sökum eðlisfars líklegur til að skapa þér nýjan farveg í atvinnumálum (nýtt starf eða starfsvettvang). Rahu styður einnig óhefðbundnar eða óvenjulega nálgun til starfs og þú gætir farið að starfa við einhverja nýbreytni. Rahu gefur vissan eldmóð sem er mjög skemmtilegur í tíunda húsi frama og gæti ausið þig einlægum og mögulega áráttukenndum áhuga á starfi og orðstír. Rahu getur þó í sinni veikustu birtingarmynd skapað óstöðugleika og ótta og það gerir hann þegar hann er veikburða í þínu fæðingarkorti.

Aðalpláneta meyjunnar hefur nú í júní tekið höndum saman við Rahu og mun efla þessi áðursögð áhrif til muna. Nýir og árangursríkir viðskiptasamningar eru líklegir, skemmtileg viðskipti, samskipti, skrif eða ræðuhöld munu einkenna júnímánuð. Þú færð viðurkenningu og upphafningu fyrir færni, greind og útsjónasemi.

Venus er einnig í gríðarlegum styrk í júní en liggur í níunda húsi. Mikil leiðsögn eða handleiðsla kvenkennara mun taka birtingu í lífi þínu. Handleiðsla sem setur hlutina í samhengi og styður við tilfinningalegan stöðugleika, tilgang og stefnu. Stuðningur gæti einnig birst í mat, nautnum og munaði.

VOG

NÝ HUGMYNDAFRÆÐI – LÆRDÓMUR – FELULEIKIR

Júní mánuður er frábær mánuður til endurmenntunar eða hvers kyns lærdóms fyrir vogina. Staðsetning Merkúr stuðlar að útvíkkun á heimsmynd þinni í júní og hugmyndafræði sem þú hefur ekki séð áður gæti náð athygli þinni. Samskipti munu skapast sem teygja út hugsun þína varðandi ólíka lífsstíla og viðhorf og opnar fyrir auðmýkt og hugmyndafræðilegan sveigjanleika. Almennt eru stjörnurnar frábærar til ferðalaga og ef einhver fer á ferðalög á þessum tíma verður það vogin eða meyjan.

Þetta er árið þar sem vogin neyðist til að endurbyggja stoðirnar í lífi sínu. Annað hvort mun heimilið þurfa endurbætur eða skilnaður leiðir til flutnings og nýs upphafs. Stundum hvort tveggja. Sjötta húsið er illa leikið í augnablikinu en þetta skapar annað hvort bugandi álag á sviði atvinnu, heilsukvilla eða stöðugt og þungt andstreymi. Þetta er líklegt til að skapa þér áhyggjur og tilfinningalíf vogarinnar einkennist af smá þunga og þreytu þessa dagana.

Vogin ber sterka tengingu við sína ráðandi plánetu Venus og er því miður ekki í stöðu til að njóta styrks Venusar að sinni. Venus eins og áður um rætt er í miklum styrk núna í allt sumar en lendir á dimmasta svæði korti vogarinnar. Þetta er líklegt til að skapa einhvers konar aðskilnað frá hamingju, maka eða ást. Þetta sumar mun einkennast af leyndardómum, varnarleysi og umbreytingum í ástarmálum. Sameiginleg fjármál munu hins vegar blómstra, sem og mögulega kynferðisleg sambönd. Mikill léttir skapast í korti vogarinnar þegar Venus færir sig á vettvang tvíburans síðasta dag júlí mánaðar þessa árs.

SPORÐDREKI

TRÚFESTA ÁST OG RÓMANTÍK

Þetta eru fallegir og rómantískir tímar í lífi sporðdrekans sumarið 2020. Pláneta ástar, munaðs og hamingju tók sér sæti á kröftugum stað á síðasta degi marsmánaðar og verður þar til lok júlímánaðar. Þetta er tími sem mun einkennast af trúfestu og styrk í rómantík og samböndum. Ef þú kæri sporðdreki varst einhleypur fyrir apríl þessa árs máttu eiga von á því að það taki breytingum yfir sumarmánuðina og þið hinir megið eiga von á vaxandi styrk í þínu sambandi – þetta mun sýna sig í öllum samskiptum samt sem áður og þá sérstaklega í tengslum við náin viðskiptasambönd og ýmis vinnubandalög sem þú gætir hafa mótað í lífi þínu. Þann 5. maí síðastliðin urðu augljós tímamót í korti sporðdrekans – ekki stór tímamót en þó tímamót. Þá hreyfðist við kortinu þínu og átakanleg samskipti hættu að skipta máli og heimilið, hjartað eða móðirin tóku miðjusætið í lífi þínu. Þetta mun skapa umbætur og/eða meiri umferð um heimilið.

Vinnan gæti hafa flust heim á við og mun svo taka öðrum stakkaskipum við næstu tímamót sem verða þann 18. júní næstkomandi. Við þessa breytingu muntu sjá enn frekari sköpun, frjósemi, og virkni í lífi þínu. Gríðarlegur styrkur ríkir í korti þínu þessar næstu vikur og þú munt sjá tækifærin flæða inná borð til þín. Þetta mun sýna sig sérstaklega í rómantík, listrænni sköpun og tækifærum þeim tengdum og tækifærum til nýrra og arðvænlegra fjárfestinga.

BOGMAÐUR

VANLÍÐAN – BROTIN SJÁLFSMYND – STÖÐNUN Í ÁSTARMÁLUM

Miklar hræringar og í raun óstöðugleiki einkenna líf bogmannsins þessa dagana. Ráðandi pláneta bogmannsins er nálægt mörkum tveggja merkja og hefur verið síðustu mánuði, þetta eitt og sér skapar óstöðugleika í tengslum við bogmanninn og þá sérstaklega í málefnum tengdum heimilinu, hjartanu og móður. Júpíter er einnig í mikilli nærveru við Plútó allan júní mánuð og leggst á sömu gráðu þann 29. júní og þetta mun skapa mikið varnarleysi í stöðu mála, þar sem valdið verður svipt frá þér og mikil óvissa mun ríkja í þínum málum. Millibilsástand skapast svo í kjölfarið en stefnan verður ekki almennilega ljós fyrr en 13. september þegar Júpíter fer fram á við á ný. Plútóáhrif á plánetu fjórða húss skapar líka tilfinningar á borð við kvíða, óöryggi og varnarleysi. Ég hvet þig kæri bogmaður til að skapa þér rútínu stöðugleika, með nægum tíma til slökunar, hugleiðslu og hvíldar.

Ástarmál bogmannsins eru ekki mikið til að hrópa húrra fyrir þetta sumarið en Venus hefur plantað sér á erfiðum stað. Það má segja að það sé mótsögn í kortinu í sumar, því Rahu í sjöunda húsi bogmannsins er að skapa honum mikla þrá til að vera í sambandi og í samskiptum við aðra, en rétt á meðan Venus staldrar við í heila fjóra mánuði í nautinu munu ástarmálin vera sorgum þrungin og erfið. Reyndu að anda með vinstri nösinni elsku vinur og einbeittu á skapandi skrif og einhvers konar þjónustu rétt á meðan. Staða Venusar hefur einnig hefur áhrif á félagslíf bogmannsins og vinir gætu tekið sér stöðu sem óvinir og/eða áhrifaríkur aðili. Farðu gætilega í samskiptum til júlíloka og reyndu að sitja þennan tíma af þér. Það versta sem maður gerir undir erfiðum plánetum áhrifum er að reyna að þvinga fram einhverjar breytingar og stýra hlutum í betri farveg. Stundum er einfaldleikinn einfaldlega málið og þetta er slíkur tími. Venus er þó á frábærum stað til að efla sköpun í starfi, sem og betra peningaflæði og hvers kyns samstarf við konur á þessum tíma til lok júlí. Listrænir bogmenn gæti upplifað gríðarlega grósku á þessum tíma.

STEINGEIT

FÓKUS Á HREINSUN – MIKIL HELGUN MAKA EÐA ÁSTVINAR –

Þetta er ár uppbyggingar og nýs upphafs fyrir steingeitina. Eftir tvö ár af markvissu niðurrifi fær hún tækifæri til að skapa sér nýtt líf – afar afar hægt – en þó. Með Rahu í sjötta húsi veitir henni líka nóg af verkefnum en að eiga við hreinsun á líkama og sál er hluti af þessu nýja upphafi. Með Rahu í sjötta húsi gæti skapast umhverfi óhreininda, myglu, eða sveppa í kringum steingeitina, sem gæti hafa verið að skapa henni heilsufarslega kvilla, en þetta er karmavinna sem stendur til lok september og snýst um að vinna og fókusera á nákvæmni, hreinlæti og hreinsun, ekki bara á líkama og sál, heldur einnig í lífsstíl og heimili.

Þetta er þó ljúfur og fallegur tími í lífi steingeita.

Af öllum merkjunum tólf upplifir steingeitin langmestu helgunina og ást frá maka þetta sumar til og með ágústmánaðar. Einhver er yfir sig ástfanginn af steingeitinni og lifir hún þessa dagana á bleiku skýi í fallegu og rómantísku sambandi.

VATNSBERI

KOSTNAÐUR – RÓMANTÍKIN BLÓMSTRAR OG HJARTASTÖÐIN

Þetta ár verður örlítið kostnaðarsamt í lífi vatnsberans, en kostnaðurinn mun fara í að byggja sterkar stoðir fyrir framtíðina. Svefn gæti einnig verið til vandræða undir þessum áhrifum og þú gætir eignast leyndarmál sem reynist þér þung byrgði að bera en nauðsynleg fyrir einhverja ástæðu.

Júnímánuður er tími mikillar virkni í lífi þínu. Þú hefur mikla orku og færð nú tækifæri til að sýna hvað í þér býr. Marsorkan er mikil og á það til að skapa fljótfærni, styrk og orku en stundum skort á nærgætni og næmni. Ef þú ert að laða að þér áflog skaltu huga aðeins betur að því hvernig þú ert að nálgast fólkið í kringum þig. Stundum veitir vatnsberanum ekkert af þessari orku því hann getur átt það til að láta aðra ganga fyrir og hugsa um hag heildarinnar frekar en þarfir sjálfs síns. Nú rennur hugrekkið um æðar þér og þér gæti fundist mikilvægt að beita fyrir þér rétti þínum. Kannski er líka þörf á því og þá kemur þessi orka sér vel.

Frá byrjun júní skapaðist skemmtileg tenging í korti vatnsberans. Með Merkúr í fimmta gætirðu átt von á skyndilegum peningagróða í gegnum hvers kyns samvinnu eða í gegnum tryggingar eða maka. Hugarlíf verður einstaklega næmt og þú gæti upplifað burði til að rannsaka hlutina í þaula. Þú sérð meira með þriðja auganu og gætir upplifað flass af snilligáfu í júní mánuði. Frjósemi, húmor og færni til að hugsa fyrir utan kassann verður áberandi. Hugarleikni verður áberandi. Venus er í miklum styrk í fjórða húsi og fegrun heimilis og hamingja verður mikil í lífi vatnsberans allt þetta sumar.

FISKUR

NÝR FÉLAGSHÓPUR – NÝ MARKMIÐ – ÞRÖSKULDAR – STÖÐNUN

Tíminn er kominn í lífi fisksins að skipta um langvarandi stefnu, bæði í tengslum við atvinnu og vini. Fiskurinn finnur nú til sterkrar þarfar til að eiga samskipti við djúpþenkjandi og kraftmikla einstaklinga sem láta sig varða. Það er ekki lengur nóg að eiga sameiginleg áhugamál með fólki eða finnast einstaklingurinn skemmtilegur og áhugaverður. Nú verður fiskurinn að finna til sterkrar og kraftmikillar tengingu við fólk til að hreinlega nenna að byggja upp vinskap við það. Hann missir í kjölfarið áhugann á gömlum vinum og gömlu leiðum til samskipta við félagshóp. Hann laðar að sér einstaklinga sem hafa í sér heilara og þráir sálufélagatengingar. Nýir einstaklingar eru nú að flykkjast inní líf fisksins og þú getur treyst því að þetta eru gamlar sálutengingar sem þú hefur beðið eftir að hitta í þessari lífsvist.

Fiskurinn eins og bogmaðurinn hefur Júpiter sem ráðandi plánetu en Júpíter er í sínu versta merki í augnablikinu, króaður af á milli tveggja sorgarþrungna og skuggsælna pláneta. Júpíter í þessari stöðu er lítið sem ekkert fær um að skapa þá þenslu, tækifæri og góðæri en það er hans megin hlutverk í flestum kortum. Fiskurinn er því að upplifa almennt mikinn samdrátt, þunga, þröskulda, þunglyndi, varnarleysi og vanmátt. Þetta hefur varað núna í nokkrar vikur en ætti að lagast örlítið á næstu vikum. Júpíter heldur þó áfram alveg næsta árið að vera nokkuð nálægur þessum kröfuhörðu nágrönnum sem skyggja töluvert á mátt hans, léttleika og gjafmildi. Það má segja að allt sem fiskurinn ætlar sér þessa dagana mun taka extra langan tíma og kalla á óvenju marga og flókna þröskulda.
Í júní skapast mikil vinátta við nágrannanna, heimilið verður griðastaður lærdóms og undirbúnings framtíðar í þessari erfiðu stöðnun. Fólkið í lífi fisksins reynist vel og samband við móður gæti tekið forgang í júní og júlí.