Nóvember árið 2020 er nokkuð tvískiptur en á þrettándanum fer Mars loksins úr afturgír og á sextándanum fara bæði Sól og Venus í merkjaskipti. Eins og þið lásuð í dálki mínum fyrir síðasta mánuð er tímabil hrisstinga í gangi. Hvað þýðir það? Jú, mikið um erfið skilaboð og samskipti sem hrissta uppí stöðugleika og líðan fólks. Þetta er áfram í gangi í nóvember en nær þó meira jafnvægi þegar Merkúr er kominn í höfn og í framvindu síðustu dagana í nóvember, þegar hann er kominn frá mestu álagafjötrum Úranusar.

Í nóvember eru þó ný verkefni, sem varða ástina, tengsli og sköpun og allar birtingarmyndir ástartengsla. Hver hefur ekki heyrt frasann “Konur eru frá Venus og Karlar eru frá Mars”. Ekkert gæti verið nær sannleikanum en í nóvember fara þessar tvær í náin samskipti en nokkuð átakanleg samskipti og erfið samskipti. Þetta þýðir vissulega ólíka hluti fyrir ólík merki en grunnurinn í orkunni er tog og þá sérstaklega á milli ólíkra átta, póla og stefna. Konur og menn munu takast á, stundum á afar skemmtilegan máta, femínismi mun takast á við gagnrýni og gamaldags karllæg gildi og ólíkir pólar í ýmsum málaflokkum stangast á. Skemmtilegt ekki satt?!

Það áhugaverðasta þó og enn ósagt er að á tuttugasta nóvember færir Júpiter sig yfir í steingeitina, en þar liggur sjálfur karmakonungurinn Satúrnus. Satúrnus og Júpiter eru illfærir um að rýma sama hús og síðast þegar þeir gerðu það féll fjármálamarkaðurinn en það var árið 2008. Við getum fyllilega gert ráð fyrir því að núna í desember þegar þeir lenda á sömu gráðum að eitthvað verði um þrengingar en Júpiter táknar börn, kennara, trúmál, gleði, þenslu, hamingju, bjartsýni og peningana okkar, og þegar Satúrnus leggst yfir hann skapast þrengingar varðandi þessa málaflokka. Andleysi, þrengsli og vonleysi gæti hellst yfir heiminn og ekki er tímasetningin góð, því tengingin er algjör á aðfangadag og jóladag og hangir saman fram yfir áramótin. Eitthvað grunar mig að jólin í ár verði af einföldum toga og að covid-19 gæti skapað okkur breytingar og þrengingar sem margir gætu átt erfitt með að samþykkja. Munið þó elsku vinir að hinn sanni jólaandi er kærleikurinn og samvera, kertaljós, góður matur og vinátta við okkar nánustu. Að vera til staðar fyrir þá sem hafa minna gæti verið extra mikilvægt í ár.

Kærleikskveðjur, Fjóla.

HRÚTUR

“Within you there is a stillness and sanctuary to which you can retreat at any time and be yourself.”
Hermann Hesse

Nóvember er eilítið strembinn tími fyrir þig kæri hrútur, sér í lagi fyrri hlutinn, en þín aðalpláneta Mars er í afturgír í 12 húsi í 12 merki sem er bæði kostnaðarsöm áhrif sem og villuráfandi á margan hátt. Undir slíkum formerkjum gæti ríkt viss óvissa yfir einhverjum mikilvægum málum sökum útgjalda og einveru, og með Venusinn illa leikinn fyrri hluta nóvembermánaðar eða til sextánda nóvember og Sólina fallna í húsi sambanda getum við gert ráð fyrir erfiðleikum í samböndum – eitthvað um orkutog og mögulega valdabaráttu. Heilsan gæti þjáðst á þessum tíma og þá sérstaklega hormónakerfi, nýru, húð og æxlunarfæri. Hiti, bólgur, sýking eða bruni væru þá orsök. Ég hvet þig til að hafa þig hægan, leitaðu þér aðstoð góðra manna með útgjöld og andlegu hliðina en þrátt fyrir þungan róður er mikil og góð aðstoð allt í kringum þig – öflug handleiðsla, góður kennari eða þerapisti. Góðu fréttirnar eru þær að á sextánda nóvember fer allt að snúast við og mikið jafnvægi kemst á bæði heilsu og sambönd. Þeir hrútar sem standa einir eða eru einhleypir og þrá samband geta vænst þess að ástin banki uppá. Sérstaklega frá 16. nóvember til og með 11. desember. Eftir 16 nóvember skapast varnarleysi eða hræringar í kringum börnin þín – svo gættu extra vel uppá sýklavarnir í nóvember hvað þau varðar og auðvitað þig sjálfa/n.

NAUT

“Life isn’t about finding yourself. Life is about creating yourself.”
George Bernard Shaw

Aðalpláneta nautsins er kröftug á uppskeruvettvangi til miðs nóvember, staðsett í kröftugum dansi með Mars í húsi drauma og markmiða. Falleg, skemmtileg, og mögulega afar rómantísk staða tekur sér stöðu í lífi þínu í byrjun nóvember. Þú upplifir gríðarlega frjósemi, bæði andlega og líkamlega, fólk bregst við þér á jákvæðan máta og þú upplifir bæði rómantíska og kynferðislega athygli, mögulega óvænta athygli frá vinum líka. Skapandi verkefni og markmið eru í skoðun til fjórtánda nóvember en taka sér skýra mynd og verða að veruleika eftir það.
Sameiginleg fjármál, peningar úr sjóðum eða arfur hefur verið að styrkja þig töluvert fjárhagslega síðasta árið en við flutning Júpiters í nóvember skapast einhverjir þröskuldar í þessu tekjuflæði – og þá sér í desember svo farðu gætilega og draga inn fjármuni úr sameiginlegum sjóðum ef hægt er fyrir þann tíma. Eins myndi ég ekki mæla með neinum áhættuleik í fjármálum og þá eins og áður sagt, síst af öllu seinnipart desembermánaðar.
Sjálfsvinna er stór hluti af verkefni þínu þessa dagana og verður næstu þrjú misseri. Einhvers konar vanþóknun í samböndum skapast einnig, en það er hluti af þessari karmísku stýringu sem beinir þér í átt að sjálfinu. Verkefnið í bili ert þú sjálfur, þinn líkami, þinn persónuleiki og fínpússun karakters.

TVÍBURI

“True happiness comes from the joy of deeds well done, the zest of creating things anew.”
Antoine de Saint-Exupery

Þriðja nóvember snýr aðalpláneta tvíburans sér við, stöðnun, íhugun og skoðunartímabili lýkur og við tekur markvissari framvinda. Með Merkúr sterkan ástamt Sólinni í frjósamasta og rómantískasta húsi kortsins í merki ástarinnar (vog) getum við fyllilega gert ráð fyrir yndislegum tveim vikum af frjósemi, sköpun og í raun hreinni og beinni uppskeru, sérstaklega frá 3-16 nóvember. Notaðu þennan tíma vel og fjárfestu í eigin sköpun og þeirra uppskeru sem henni fylgir. Frábær tækifæri til fjárfestinga gæti gert vart við sig á þessum tíma, sem og nýr ástarljómi. Þú upplifir mikið sjálfsöryggi, skýra sýn og öfluga framvindu, en mikið muntu einnig geta treyst á fólk og laðar að þér ómeðvitað það besta sem fólksflóran hefur uppá að bjóða.

Mig langar einnig að minnast á smá töfra sem eiga sér stað á þrettándanum þegar Rahu tekur Venus kverkataki en á þeim degi gætirðu upplifað óvænta ástartilfinningar, áráttu eða einhverjir ykkar ótta. Þennan dag eru örlagafjötrar Rahu kröftugir og við það að stíga út fyrir aðstæður og meta aðstæður ískalt og óháð muntu sjá hvar fjötrarnir eru að leika leiki og hvar ekki. Rahu á það líka til að skapa óþreytandi þrár og óseðjandi langanir rétt á meðan hann nær föstum tökum.

KRABBI

“You are never too old to set another goal or to dream a new dream.”
C.S. Lewis

Þetta er árið þar sem þú munt skapa þér ný markmið og jafnvel óvenjuleg eða sérstök markmið. Að hreinlega skoða hvaða gömul markmið eru þér enn mikilvæg og hvaða nýju markmið eiga erindi. Þú munt fá heilmikla handleiðslu við þetta svo leyfðu þessu að eiga sér stað á eigin hraða. Venus er pláneta sem ávallt er kröftug fyrir krabbann og skapar sterka Malavya yoga í korti krabbans eftir sextánda nóvember. Við þetta skapast mikill friður í lífi krabbans og blessanir sem lúta að heimili, fasteignamálum, móður, ást og fegurð. Þessi yoga á sér stað í hjartastöð og blómstrar hjartastöð krabbans sem aldrei fyrr. Ástin finnur sér leið heim á við og í hjarta krabbans á þessum tíma. Eins og við vitum að þegar ræturnar blómstra þá blómstrar allt tréð.

Mikil vernd hefur legið yfir heilsu, andstreymi, óvild og slíkum málum og því eru flestir vinir í kringum krabbann þessa dagana. Einhvers konar varnarleysi varðandi þessi mál birtast þér í nóvember og sérstaklega á 10-11 nóvember en vertu þó alveg pollrólegur kæri vinur minn því þetta er bara stefnubreyting sem mun færa fram blessanir og nýja einstaklinga inní líf þitt. Á tuttugasta nóvember færir Júpiter sig yfir í steingeitina og við það breytingar á samböndunum í lífi þínu – sér í lagi þessi daglegu og nánustu. Fólkið í lífi þínu fer við þessa breytingu að farnast betur og vernd kemst yfir fólkið þitt. Þetta er vernd sem heldur sér markvisst til næsta hausts – að þó undanskildum tímanum rétt yfir jólin þegar Satúrnus nær að kaffæra Júpiter og þrengsli skapast um allan heim.

LJÓN

“He was now in that state of fire that she loved. She wanted to be burnt.”
Anais Nin

Ljónið geislar af fegurð og kynþokka í nóvember og ekki síst í tjáningu og skrifum.
Málefni sem varða fjölskyldu, tekjur og eignamál og voru í skoðun í október, ættu að sjá einhvers konar lendingu eftir þriðja nóvember þegar Merkúr fer fram á við. Merkúr liggur á eigin vettvangi og skapar samskiptaríkan mánuð, mögulega ferðalög og töluvert af “snatti”, skrifum og mögulega umsóknar- eða skýrsluvinnu. Þetta verður sérstaklega áberandi til miðs mánaðar á meðan sólin dvelur þar við. Samskipti og skriftir gætu verið á döfinni eða hvers kyns skjalafrágangur og skipulagsvinna.

Þriðja hús orka er hratt tempó og fyrstu tvær vikur nóvember ættu að vera hraður og annasamur tími. Eftir sextánda færirðu þig meira inná orku heimilisins, inní hreiðurgerð og ferð að vinna heima við og verður fær um að skapa þér hlýja og góða skel fyrir komandi vetrartíð. Hjartans mál, móðir þín og þínir nánustu ættingjar spila þarna lykilhlutverk og verða þema til miðs desember. Í nóvember gæti fjármagnsstuðningur komið inn, sér í lagi eftir snúning Mars eftir fjórtánda þessa mánaðar.

MEYJA

“A joke is a very serious thing.”
Winston Churchill

Þriðja nóvember snýr aðalpláneta meyjunnar sér við, stöðnun, íhugun og skoðunartímabili lýkur og við tekur markvissari framvinda á sviði status, tekjulindar, fjölskyldumála og samskipta. Á sama tíma rýkir parivartana yoga á milli Merkúr og Venusar svo annað húsið blómstrar gríðarlega á þessum tíma – 3 til 17 nóvember. Annað húsið varðar sjálfsmynd okkar, sem og burði til tjáningar og framsetningar. Annað húsið táknar tekjurnar okkar, fjölskyldulíf, gildi og eignir. Þegar vinirnir Venus og Merkúr tengjast böndum skapast mikill hugarléttleiki og hugarleikni og þetta mun sýna sig meðal annars í fjölskyldu, sterkri sjálfsmynd og eignaviðskiptum á þessum tíma. Tjáning þín einkennist af húmor, léttleika og ást og laðar að sér falleg og gjöful samskipti.

Satúrnus hefur legið í hálfgerðu stoppi á vettvangi hugarlífs, rómantíkur og barna síðustu mánuði og þar skapar hann vandamál, stöðnun eða skort að því sem lúta að gleði, rómantík og fínni sviðum lífsins. Satúrnus á þessum vettvangi er gjarn á að skapa tálmanir í viðleitni til barneigna eða einhvers konar sársauka sem lýtur að börnum. Eftir nóvember geturðu átt von á því að þessi þungi í hjarta þér léttist og lausnir birtist þér fyrir blessunarlegu orku Júpiters sem tekur þá höndum saman við Satúrnusinn. Júpiterinn hefur verið að skapa fallega orku inná heimili og skapað frið og fegrun í tengslum við heimili og heimilisaðstæður en færir sig nú á tuttugasta yfir í steingeit og styrkir þar gleði, börn, sköpun, frjósemi og hamingju.

VOG

“Home isn’t a place, it´s a feeling.”
Cecelia Ahern

Kröftug Sólin fer yfir rísanda vogarinnar fyrri hluta nóvember og skapar kröftugan metnað og tengsli við aðra metnaðarfulla einstaklinga og vini. Sólin er pláneta áþreifanlegs árangurs í korti vogarinnar og boðar tíma innkomu og nýrra tækifæra. Þetta verður þó að skoða í samhengi Merkúrs sem einnig situr á rísandanum og skapar furðulega og ófyrirsjáanlega afsölu hjá voginni og mögulega sérkennileg samskipti á æðri sviðunum, í hugleiðslu og draumum.
Þensla og gleði hefur átt sér stað í kringum samskipti, skrif eða sköpun á atvinnusviði síðustu mánuði en einhver umskipti munu eiga sér stað um þann tíunda nóvember þegar uppstokkun verður á atvinnusviði. Þessi uppstokkun gæti varðar innkomu eða kennslu í tengslum við atvinnumál og er upphaf varanlegra breytinga sem fara að sýna sig enn betur eftir þann tuttugasta.

Mestu og þyngstu verkefnin þetta misserið varðar stöðugleika og ræturnar. Einhvers konar verkefni sýna sig í tengslum við heimilið, flutningar í minna eða ódýrara gæti verið á sjóndeildarhringnum, eins gæti verið þörf á viðgerðum heima við. Eftir flutning Júpiters á tuttugasta skapast einhvers konar þrengingar í tengslum við heilsu og samskipti en þau vara við stutt og við tekur bættar aðstæður inná heimili og betri líðan.

SPORÐDREKI

“Wealth is of the heart and mind and not of the pocket.”
Pharrell

Mikil skipti verða um miðjan mánuð í kortinu þínu kæri sporðdreki en báðar plánetur orku (mars) og framvindu (sól) munu skipta um ham á fimmtánda og sextánda þessa mánaðar. Fyrri hluti nóvember verður íhugandi, hægur og lítið um áhuga, lífskraft eða framvindu. Útgjöld og stöðnun verða áberandi á þeim tíma en þegar Sólin færir sig á rísandann þinn þann fimmtánda, fer í gang mikill kraftur, metnaður, framvinda og þér hlotnast tækifæri í gegnum yfirvald, yfirmann eða stjórnsýslu. Mars, sem er aðalpláneta sporðdrekans rennur um eitt öflugasta hús kortsins í nóvember og innan vettvangs Revati sem er smástirni sem kallast “Sá Auðugi”. Fyrri hluta nóvember er þó Mars í afturgír sem stuðlar að íhugandi og innhverfri orku sem gæti þar sem hún er stödd skapað pælingar og þankagang varðandi fasteignamál, fjárfestingar, ástina, börnin þín og eða menntamál. Þessi mikli þankagangur fer svo að kyrrast um miðjan mánuðinn, aðallega því þú ferð að átta þig á því hvernig þú vilt haga þessum málaflokkum og framvinda fer í gang í kjölfarið. Þessi framvinda verður bæði gleðileg og auðgandi, bæði andlega og peningalega. Júpiter er að skapa mikla innkomu, og þér gætu hlotnast eignir undir þessum áhrifum. Eignir sem frá þínum dyrum séð eru ómetanlegar.

BOGMAÐUR

“We cannot ask people to give to us something that we do not believe we are worthy of receiving.”
Brene Brown

Bogmannsmerkið hefur notið mikils styrks síðasta árið. Skiptingar eru núna í korti bogmannsins en aðalpláneta sem hefur skipað rísandann síðan síðasta haust fer nú í sitt erfiðasta merki þar sem hans þyngsti andstæðingur situr, Satúrnus. Þar sem Júpiter táknar þenslu og Satúrnus stöðnun og skort, henta þeir orku hvers annars afar illa og fyrst eftir þessi merkjaskipti – það er að segja í nóvember og sér í lagi í desember verður skortur á frelsi og þenslunni sem bogmaðurinn þrífst svo vel í. Júpiter rennur yfir Plútó rétt áður en hann færir sig á tuttugasta nóvember og þetta gæti skapað miklar breytingar, sér í lagi á heimili og heimilisaðstæðum. Það gefur því að skilja að hræringar eru á sjóndeildarhringnum.

Góðu fréttirnar eru þær að öflugasti bandamaður bogmannsins – Sólin sjálf – rennur í húsi tekna, vina og áhrifavalda frá 15. Október til 15. Nóvember næstkomandi og skapar farveg fyrir sterkt bakland og öfluga bandamenn. Hikaðu ekki við að leita til þinna nánustu á þessum tíma.

STEINGEIT

“Wherever you are, be there totally.”
Eckhart Tolle

Kæra steingeit, ég veit það liggja þyngsli á þér og erfitt er að færa sig úr stað og finna neista og frumkvæði. Þegar Mars fer í framför aftur á þrettándanum mun þetta vissulega lagast örlítið en með framvindu Mars liggja verkin okkar skýrar fyrir en þetta er eitthvað sem ávallt skiptir þig miklu máli. Steingeitin er merki sem lætur verkin tala og hefur djúpstæða þörf fyrir það að sjá hvert hún er að fara, að skipuleggja leið sína og finna til sín í gegnum verk handa sinna. Hluti af þunganum er vissulega staða þungs Satúrnusar í fyrsta húsi en hann á það til að skapa stöðnun og innhverfa orku sem er erfitt að hreyfa úr stað. Satúrnus hamlar oft framför, og gerir það með því að planta efasemdum og djúpum íhugunarefnum um þig sjálfan sem þú neyðist til að ígrunda og skilja til að leysa. Atburðarás síðustu vikna og mánaða gætu hafa leitt til þess að þú ert nú eilítið fastur í lífi þínu. Tekjuskortur eða stöðnun gæti verið þar þáttur og því skapast þungi yfir þér sem er erfitt að vinna í gegnum. Hafðu þó ekki áhyggjur elsku vinur því verkefnið núna er að kryfja kima sálarinnar og leyfa sér að fara djúpt inní þá vinnu. Hættu því að reyna að hlaupa í hringi, kveiktu á góðri tónlist eða sestu niður og gerðu hugleiðsluna á reglulegum þætti í daglega lífinu. Fagnaðu orku Satúrnusar með að taka í höndina á honum með djúpri og markvissri innri skoðun. Færðu planið inn á við og leyfðu þér að rækta hug og hjarta af raunsærri einlægni og heilindum. Með tímanum muntu finna þyngslin létta og þú munt hafa byggt upp þínar andlegu stoðir sem verða þér bara til styrkingar um árabil.

VATNSBERI

“We´ll be friends forever, won’t we, Pooh?” – asked Piglet
“Even longer.” – Pooh answered

Siðprýði og gagnkvæmur stuðningur einkennir sambönd fyrri hluta mánaðar og um miðjan mánuðinn þegar Júpiter og Plútó sameinast þá gæti gert vart við sig einhvers bónus eða auka tekjuflæði í gegnum atvinnu og frama. Venus er kröftug pláneta fyrir vatnsberann og liggur í húsi sameiginlegra tekna eða styrkja til miðs nóvember og á meðan geturðu gert ráð fyrir góðum fjárhagslegum stuðningi frá maka eða viðskiptafélaga. Þegar venus færir sig á sextándanum og fer í sitt sterkasta merki skapast gríðarlega sterkt samband við erlenda konu eða konu sem veitir þér stuðning, gæti verið kennari eða ráðgjafi. Júpiter færir sig svo undir lok mánaðarins á nýjan vettvang og breytir því miður því skemmtilega hópastarfi sem þú hefur verið viðloðin/n síðasta árið og einhvers konar útgjöld eða flækjur skapast. Þetta gæti verið erfiður tími fyrir vini og/eldra systkin en möguleiki er á að einhver spítalavist eða veikindi geri vart við sig. Þó að tekjur minnki mögulega á næstu vikum og mánuðum þá munu líka útgjöld minnka að sama skapi en verkefni komandi vikna og mánaða snúast um einfaldleika, flæði auðlinda og innri skoðun. Vandamál með svefn gæti gert vart við sig.

FISKUR

“I may be a senior, but so what? I’m still hot.”
Betty White

Hin stórfellda rafmagnaða orka sem fylgir tengingu Venus og Mars í nóvember lendir á ás rísanda og sambanda í korti fisksins í nóvember. Þetta þýðir einfaldlega að með Mars í fyrsta húsi ertu að upplifa kraftmiklar líkamlegar þarfir og sýnir mikla áræðni í að fá löngunum þínum framfylgt. Venus sem situr á móti er á vettvangi sambanda, og ekki er laust við að nóg verði um freistingar og fegurð í kringum þig kæri fiskur. Á dögunum 7-11 nóvember verður þetta í hámarki og sérstaklega á 9-10 nóvember. Hiti verður heilmikill og villtar ástríður líkleg útkoma. Farðu þó gætilega því þessi tenging á það til að vera stjórnlaus og getur endað í rifrildi og áflogum. Skortur getur ríkt á skynsemi og siðferði þegar svona kraftar taka völdin.

Karmísk vinna merkjanna hefur misjafna birtingarmynd og er að vissu leyti lögð upp út frá rísandanum og því skiptir tímasetning í kortalestri eins miklu máli og raun ber vitni. Fiskur rísandi hefur mánaðarlanga ferla og verkefni sem eru tengd sólarorkunni en hún lendir á vandasömum stað í korti fisksins í nóvember. Í síðari hluta nóvember birtist þetta verkefni sem einhver togstreita við föður eða ráðgjafa, kennara eða lögmann. Þú munt reyna markvisst að bæði veita og þyggja stuðning síðustu vikur nóvember en í stað gæti hreinlega skapast óvild og vandkvæði. Farðu því gætilega í öllum samskiptum þessu tengdu.